Lyfjayfirvöld í Evrópu og Bandaríkjunum fjalla nú um umsóknir fyrir notkun á að minnsta kosti þremur bóluefnum við Covid-19 og er talið að bólusetningar gætu hafist strax á næstu vikum. Útlit er þó fyrir að erfitt verði að ná nægilegri þátttöku í bólusetningunni til þess að hún skili tilskyldum árangri sums staðar. Í Bandaríkjunum hafa þrír fyrrverandi forsetar boðist til þess að láta bólusetja sig í beinni sjónvarpsútsendingu til að auka tiltrú almennings á bólusetningu.
Í könnuninni félagsrannsóknastofnun Spánar gerði kom fram að aðeins þriðjungur svarenda var tilbúinn að láta bólusetja sig strax en 55,2% vildu heldur bíða og sjá hvaða áhrif bóluefnið hefði á þá sem fá það í upphafi, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Af þeim sem vildu bíða og sjá til sögðust þó 60% myndu skipta um skoðun ef læknir ráðlegði þeim að láta bólusetja sig vegna þess að heilsa þeirra eða ættingja væri í hættu. Um 8,4% sögðust ekki vilja bóluefni af neinu tagi.
Til stendur að byrja að bólusetja íbúa á hjúkrunarheimilum á Spáni í janúar. Fyrir maí eða júní stefnir ríkisstjórnin á að bólusetja 15-20 milljónir af um 47 milljónum íbúum landsins. Spánn er eitt þeirra ríkja sem hefur farið einna verst út úr faraldrinum til þessa.
Bandarískur karlmaður sem tók þátt í bóluefnisrannsókn lyfjafyrirtækisins Moderna kvaðst hafa fengið vægar aukaverkanir eftir seinni skammt í sjónvarpsviðtali vestanhafs. Hann sagði reynsluna ekki beint „dans á rósum“ en kveðst hiklaust myndu láta sprauturnar aftur yfir sig ganga. Þekkt er að bólusetningum geti fylgt vægar aukaverkanir af þessu tagi.