Þjóðverjar tilkynntu í morgun að héðan í frá yrðu Hezbollah samtökin bönnuð þar í landi og hafa þau verið skilgreind sem hryðjuverkasamtök. Þetta tilkynnti innanríkisráðherra Þjóðverja nú í morgun um leið og lögregla fór í húsleit í nokkrum moskum í fjórum borgum Þýskalands.
Öryggislögreglan í Þýskalandi telur að rúmlega eitt þúsund manns taki þátt í starfsemi Hezbollah í Þýskalandi.
Ákvörðun Þjóðverja kemur eftir þrýsting frá Ísrael og Bandaríkjamönnum en hingað til höfðu Þjóðverjar gert greinarmun á stjórnmálaarmi samtakanna og hersveita þeirra, sem meðal annars hafa barist með Assad forseta Sýrlands í borgarastríðinu þar í landi. Hezbollah styður einnig náið við bakið á Hassan Diab, forsætisráðherra Líbanon, sem tók við völdum í janúar og njóta samtökin stuðnings Íran.
Breytingin felur í sér að merki Hezbollah eru bönnuð á samkomum og í fjölmiðlum. Þar að auki getur þýska ríkið lagt hald á eigur samtakanna.
Yfirvöld Bretlands gripu til samskonar aðgerða í febrúar í fyrra. Evrópusambandið bannaði hernaðararm Hezbolla árið 2013 en ekki stjórnmálaarm samtakanna.
Reuters fréttaveitan hefur eftir Israel Katz, utanríkisráðherra Ísrael, að um mikilvæga ákvörðun sé að ræða.
„Ég kalla á önnur ríki Evrópu og Evrópusambandið að gera hið sama. Allir hlutar Hezbollah eru hryðjuverkasamtök og koma á fram við þá eftir því,“ sagði Katz.