Anton Lindskog greindist með kórónuveiruna á þriðjudaginn og þurfti fyrir vikið að draga sig út úr sænska HM-hópnum.
Leik Svía við Svartfellinga í undankeppni EM 2022 sem átti að fara fram í gær var frestað sem og leik liðanna sem átti að vera á laugardaginn.
Allt sænska liðið er nefnilega komið í sóttkví fram á mánudag þar sem óttast er að leikmenn liðsins séu smitaðir af kórónuveirunni.
Leikmenn eiga að halda sig inn á herbergjum sínum og mega aðeins umgangast herbergisfélaga sína á þessum tíma. Þeir geta æft saman tveir og tveir en liðið má ekki æfa saman fyrr en í fyrsta lagi á mánudaginn, að því gefnu að leikmenn liðsins fái neikvæða niðurstöðu úr skimun.
„Þetta er það versta sem gat komið fyrir og kemur á slæmum tíma,“ sagði Glenn Solberg, þjálfari sænska landsliðsins, um ástandið í herbúðum þess. Hann sagði jafnframt að allir leikmennirnir í sænska liðinu ætli að fara á HM þótt undirbúningurinn verði óhefðbundinn í meira lagi.
Fyrsti leikur Svía á HM er gegn Tékkum eftir viku. Ástandið í herbúðum tékkneska liðsins er öllu verra en hjá því sænska en átta af þeim 22 leikmönnum sem áttu að spila leik í undankeppni EM í Færeyjum í gær eru með kórónuveiruna. Þá eru báðir þjálfarar Tékka smitaðir.