Neyðarþjónustu verður áfram sinnt. Sýni úr starfsfólki fer með flugi í hádeginu en þau fara í forgangsgreiningu á sýkla-og veirufræðideild Landspítalans.
„Vegna þess smits sem kom upp á Landspítalanum þá eru nokkrir starfsmenn sem hafa þurft að fara í sóttkví og úrvinnslusóttkví og meðan svo er þá raskast starfsemi á þremur deildum hjá okkur talsvert. Það eru röntgendeild, rannsóknardeild og skurð-og slysadeild á Ísafirði og af þeim sökum höfum við sett sjúkrahúsið á hættustig þar til niðurstöður úr sýnatökum liggja fyrir sem ætti að vera seinni partinn í dag eða í kvöld.“
Þetta segir Gylfi Ólafsson forstjóri heilbrigðisstofnunar Vestfjarða í samtali við fréttastofu. Hann segir að þrír starfsmenn séu í sóttkví vegna málsins og aðrir þrír í úrvinnslusóttkví. Gylfi segir að stofnunin grípi til þessara aðgerða til að gæta fyllstu varúðar.
„Síðan tökum við stöðuna aftur í kvöld þegar niðurstaðan úr þessum sýnatökum liggur fyrir og þá vonumst við til þess að við getum aflétt þessu hættustigi þannig að stofnunin geti farið að starfa frekar eðlilega en þó er fyrirséð að einhver röskun verði á starfsemi einhverra deilda áfram en öryggi sjúklinga eða íbúa er ekki nein hætta búin, eins og staðan er en við viljum bara grípa til þessara aðgerða til að undirstrika það að við álítum þetta mögulega hættu og gætum fyllstu varúðar.“
Gylfi segir málið undirstrika að faraldurinn sé ekki búinn. Þrátt fyrir að gripið hafi verið til tilslakana á sóttvarnareglum innanlands og að bólusetning sé komin eitthvað á veg sé enn fjöldi fólks sem sé í áhættuhópi sem hafi ekki fengið bólusetningu.
„Og þótt það sé búið að bólusetja eitthvað af framlínustarfsfólki þá er enn talsvert af heilbrigðisstarfsfólki sem ekki hefur verið bólusett og svo er það þannig að framlínustarfsfólkið er bara búið að fá fyrri skammtinn og þar með er ekki komin þessi fulla vernd sem við vonumst nú til að komi nú á næstu vikum.“