Þetta kemur fram í yfirliti lögreglunnar á Suðurlandi yfir verkefni liðinnar viku.
Lögreglumenn sinntu sóttvarnaeftirliti í líkamsræktarstöð á Suðurlandi í gær, en þar hafði að öllum líkindum verið brotið gegn sóttvarnareglum. Umsjónarmaður stöðvarinnar ákvað að loka henni þar til hlutirnir væru komnir í lag, en skýrsla var rituð og fer því næst til ákærusviðs.
Á fimmtudag í síðustu viku lagði lögregla hald á þrjátíu kannabisplöntur í Árnessýslu og kannaðist íbúi hússins við að eiga ræktunina, en hún hafði farið fram í sérstaklega innréttuðu herbergi í kjallara hússins.
Þá hafði lögregla afskipti af nokkrum ökumönnum vegna ýmissa brota, en ellefu ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur. Einn var kærður fyrir farsímanotkun án handfrjáls búnaðar og var sektaður um fjörutíu þúsund krónur.
Einn ökumaður var kærður fyrir að aka með farm sem mældist 4,41 metrar á breidd án þess að hafa tilskilin leyfi, annar fyrir að aka öfugu megin við umferðareyju á Selfossi og tveir fyrir að hafa ekki kveikt á aðalljósum bifreiða sinna. Þá voru tveir kærðir fyrir akstur undir áhrifum áfengis og tveir fyrir akstur undir áhrifum lyfja eða fíkniefna.