„Við spiluðum mjög vel og sérstaklega í vörninni. Við héldum þeirra helstu hestum niðri og Styrmir spilaði eins góða vörn á Ty Sabin og hægt er,“ sagði Lárus í samtali við Vísi eftir leik. Umræddur Sabin, sem er stigahæsti leikmaður Domino‘s deildarinnar, skoraði aðeins sex stig í kvöld.
„Síðan hittum við vel en mér fannst þetta byrja með mikilli orku í vörninni. Allir fórnuðu sér fyrir hvern annan og vörnin skóp þennan sigur.“
Gott jafnvægi var í sóknarleik Þórsara sem leituðu inni í teig milli þess sem þeir bjuggu til góð skot fyrir skytturnar sínar.
„Við vissum að við yrðum með töluverða yfirburði í teignum og tókum frákastabaráttuna tiltölulega auðveldlega. Við ætluðum að passa okkur á að vera ekki of lengi með boltann inni í teig og vera fljótir að koma honum aftur út og sækja á körfuna,“ sagði Lárus.
Þórsarar gengu endanlega frá leiknum með frábærri byrjun á seinni hálfleik þar sem þeir náðu mest 42 stiga forskoti.
„Við töluðum um að KR gætu komið mjög sterkir inn í seinni hálfleik. Við ætluðum ekkert að slaka heldur halda áfram að spila okkar leik,“ sagði Lárus.
Þór hefur nú unnið þrjá leiki í röð gegn sterkum liðum, Stjörnunni, ÍR og KR. Þrátt fyrir það er Lárus með báða fætur á jörðinni.
„Við megum samt ekkert ofmetnast. Maður verður að taka með í reikninginn að það eru tveir dagar síðan KR spilaði á Akureyri. Þeir eru líka ekki komnir með alla sína atvinnumenn. Kannski voru lappirnar hjá þeim töluvert þyngri en hjá okkur,“ sagði Lárus að lokum.