Danmörk sigraði Svíþjóð, 26-24, í úrslitaleik HM í gær. Þetta var annar heimsmeistaratitill Dana í röð og þeir fögnuðu honum að sjálfsögðu með stæl.
Danir voru hins vegar nokkuð framlágir í morgunsárið, áður en þeir héldu heim eftir tæplega mánaðardvöl í Egyptalandi.
„Þetta var flott. Maður finnur líka fyrir því í dag,“ sagði hornamaðurinn Magnus Landin.
„Þetta var virkilega gott partí. Hávær tónlist, góður andi, mikið af bjór og víni,“ sagði annar hornamaður, Magnus Bramming.
„Akkúrat núna hlakka ég ekki mikið til þess að fara í langt flug til Danmerkur og síðan í lest til Holstebro. Sem betur fer verða nokkrir aðrir þar svo vonandi getum við haldið áfram að gleðjast.“
Vegna samkomutakmarkana verður engin móttaka fyrir danska liðið á Kastrup eða á ráðhústorginu eins og þegar þeir urðu heimsmeistarar fyrir tveimur árum.