Frá þessu er greint í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins en þar segir að frá gildistöku laganna hafi dómsmálaráðuneytið í samstarfi við sýslumannsembættin, Þjóðskrá Íslands, verkefnastofuna um stafrænt Ísland og helstu haghafa unnið að innleiðingu nýrrar framkvæmdar við þinglýsingar.
Andri Heiðar Kristinsson, stafrænn leiðtogi fjármála- og efnahagsráðuneytisins, gaf út í janúar að rafrænar þinglýsingar yrðu að veruleika síðar á þessu ári. Feta Íslendingar þar meðal annars í fótspor Dana og Breta.
Við samþykkt lagafrumvarps um rafrænar þinglýsingar árið 2018 sagði Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, að með breytingunum yrði ferlið „nánast sjálfkrafa þegar tölvukerfið verður komið í gagnið.“
Þá var haft eftir Bergþóru Sigmundsdóttur, sviðsstjóra hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, að með tilkomu rafrænna þinglýsinga yrði fullnægjandi skjölum þinglýst á sekúndubrotum. Fram að þessu hefur móttaka, þinglýsing, afgreiðsla, aflýsing og afhending þinglýstra skjala farið fram á skrifstofu embættis sýslumanns.