Sigvaldi Björn Guðjónsson var öflugur þegar lið hans, Kielce, vann öruggan sigur í pólsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.
Sigvaldi skoraði níu mörk í tíu marka sigri, 38-28, á Mielec og var hægri hornamaðurinn því markahæsti leikmaður vallarins.
Ungstirnið Haukur Þrastarson er einnig á mála hjá Kielce en hann er fjarri góðu gamni vegna meiðsla þessa dagana.
Kielce er langbesta liðið í pólskum handbolta og hefur fullt hús stiga á toppi deildarinnar.
Einnig voru Íslendingar í eldlínunni í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.
Þar gerði Oddur Gretarsson fjögur mörk úr fimm skotum þegar lið hans, Balingen, vann öruggan útisigur á Minden, 20-27.
Viggó Kristjánsson var markahæstur í liði Stuttgart sem beið lægri hlut fyrir Coburg, 23-29. Viggó gerði sex mörk úr átta skotum.