Keppni í Lengjubikar kvenna hefst fyrir hádegi í dag þegar Íslandsmeistarar Breiðabliks taka á móti Stjörnunni í Fífunni kl. 10.30. Þess má geta að leikurinn er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
Blikar hefja tímabilið með nýjan þjálfara í brúnni eftir að Þorsteinn Halldórsson tók við landsliðinu. Vilhjálmur Kári Haraldsson stýrir nú liðinu sem hefur misst þungavigtarleikmenn á borð við Sveindísi Jane Jónsdóttur, Alexöndru Jóhannsdóttur, Karólínu Leu dóttur Vilhjálms, og Sonný Láru Þráinsdóttur.
Breiðablik vann Lengjubikarinn árið 2019 en ekki tókst að ljúka keppninni í fyrra vegna kórónuveirufaraldursins. Leikið er í tveimur riðlum og komast tvö efstu liðin upp úr hvorum riðli.
Leikir helgarinnar í A-deild kvenna:
Laugardagur:
- 10.30 Breiðablik - Stjarnan (Stöð 2 Sport)
- 12.00 Keflavík - Selfoss
- 13.00 Fylkir - FH
Sunnudagur:
- 14.00 KR - Þróttur R.
- 14.00 Valur - ÍBV
- 15.00 Þór/KA - Tindastóll
Keppni í A-deild Lengjubikar karla hófst í gær og hún heldur áfram með sjö leikjum í dag. Þar ber hæst viðureign KA og Íslandsmeistara Vals sem sýnd er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 3 kl. 15.
KA-menn hafa verið að bæta við sig mannskap en Daníel Hafsteinsson og Belgarnir Jonathan Hendrickx og Sebastiaan Brebels þurfa að bíða í nokkra daga í viðbót til að fá félagaskipti sín í gegn. Hið sama gildir um Skagamennina Arnór Smárason og Tryggva Hrafn Haraldsson sem komnir eru til Vals.
Valur og KA eru í riðli með HK og Grindavík sem mætast kl. 11.30, og Aftureldingu og Víkingi Ó. sem mættust í gær. Tvö efstu lið riðilsins komast áfram í 8-liða úrslit en leikið er í fjórum riðlum í A-deild karla.
Leikir dagsins í A-deild karla:
- 11.00 FH - Kórdrengir
- 11.30 HK - Grindavík
- 12.00 ÍA - Selfoss
- 12.00 Stjarnan - Vestri
- 14.00 Grótta - Keflavík
- 14.30 Fram - Þór
- 15.00 KA – Valur (Stöð 2 Sport 3)