Skoðun

Er ekki kominn tími á, að Sjálfstæðisflokkurinn verði sjálfstæður!

Ole Anton Bieltvedt skrifar

Þann 5. febrúar sl. var ritstjórnargrein, leiðari, í Morgunblaðinu, sem allir hugsandi menn ættu að kynna sér. Höfundur mun hafa verið fyrrverandi borgarstjóri, forsætisráðherra, seðlabankastjóri og nú annar ritstjóra blaðins. Sennilega áhrifamesti maður landsins síðustu 3-4 áratugi.

Hér má líka hafa í huga, að Morgunblaðið, með sína hundrað ára sögu, hefur, lengst af, verið helzti, áhrifamesti og virtasti fjölmiðill landsins, þó að hann haldi þeim sessi ekki lengur.

Í öllu falli verða lesendur að geta vænst þess, að leiðarar blaðisins séu efnislega réttir og allur málflutningur þar sæmilega vandaður og ábyrgur, sem ekki er í þessu tilviki.

Um hvað snérist svo þessi leiðari?

Bóluefni við COVID-19, útvegun á því svo og framgöngu ESB í málinu. Við þetta efni varð ritstjórinn svo - eins og nánast ósjálfrátt og af gömlum vana - að hnýta árásum og óhróði, mest staðlausum stöfum, á ESB og Evruna.

Þá skal stuttlega skýrt frá því, sem satt er og rétt í bóluefnamálinu:

Strax í byrjun júní sl. setti ESB 2 milljarða Evra, 320 milljarða króna, í það að styðja við þróun bóluefnis hjá 6 þróunarfyrirtækjum og framleiðendum, jafnframt því, sem sambandið tryggði sér, með þessari fyrirfram fjármögnun, hagstætt verð og forgangsafgreiðslu bóluefnis hjá nefndum aðilum.

Tryggði sambandið sér á þennan hátt afhendingu 1,3 milljarða bóluefnisskammta, fyrir aðildarríkin 27, á lægstu mögulegu verði og með mestum mögulegum hraða.

Þar sem þetta verkefni var unnið með fjármunum aðildar-ríkjanna 27, var ekki heimilt að veita öðrum löndum aðgang að þessum hagstæðu samningum, en vegna velvildar, ekki sízt nýs forseta framkvæmdastjórnar ESB, Ursulu von der Leyen, var sú leið fundin fyrir Ísland og Noreg, vegna náinna tengsla og samvinnu þeirra við ESB, að þau fengju líka aðgang að þessum bezt mögulegu lausnum í gegnum kvóta aðildarríkisins Svíþjóðar.

Hér var því um hreint vinarbragð ESB gagnvart Íslandi og Noregi að ræða, þökk sé ekki sízt von der Leyen.

Nú fyrir nokkru, þegar tilteknir bóluefnaframleiðendur, sem höfðu notið fjárstyrks ESB, tilkynntu, að þeir myndu ekki standa við gerða afhendingarsamninga við ESB, og þá um leið Ísland og Noreg, á sama tíma og þeir virtust ætla að afgreiða Bretland að fullu, brást ESB hart við og boðaði mögulegt útflutningsbann á bóluefni út úr ESB, sem þýddi m.a. lokun landamæra milli ESB og Bretlands, á Írlandi.

Var þetta skref tekið til að þrýsta á framleiðendur með það, að þeir stæðu við sínar afhendingarskuldbindingar.

Þessi landamæraþrýstingur, sem byggði á ákvæði í Brexitsamningnum, stóð aðeins hálfan dag, án þessa að valda nokkrum manni tjóni. Var í raun bara viðvörun.

Ofangreint var það efni, sem leiðarahöfundur greinilega vildi fjalla um.

Hvað stendur svo í leiðaranum?

Tilvitnun I:

Ofan á furðulegt andvaraleysi og seinagang í miðjum heimsfaraldri bætist ótrúlegt dómgreindarleysi og bráðlæti...“.

Lesendur geta, hver um sig, dæmt um það, hvort þetta sé rétt og sanngjörn lýsing á atburðarásinni.

Tilvitnun II:

Bóluefnishneyksli ESB koma efasemdarmönnum um Evrópu-samrunann ekki á óvart. Þeir hafa um árabil varað við því að Evrópusambandið sé martraðarkennt möppudýraveldi, vígi verndarstefnu og pilsfaldakapítalisma, þar sem sóun og stöðnun haldast í hendur, kjötkatlaklúbbur afdankaðra 3. flokks stjórnmálamanna, án lýðræðislegrar tilsjónar almennings álfunnar sem fær að gjalda fyrir dýru verði. Það er ekki nýtt, en á síðustu vikum hafa afhjúpast sönnunargögn fyrir öllu þessu“.

Ég spurði mig nú bara, þegar ég las þetta, datt leiðarahöfundur á höfuðið eða gekk hann á ljósastaur. Um hvaða „bóluefnahneyksli“ er hann að tala? ESB var akkúrat að gera sitt bezta til að tryggja hagsmuni Evrópubúa - líka okkar Íslendinga - með viðleitni sinni og framgöngu.

Fyrir hvern, eða hvað, er ESB „martraðarkennt möppudýraveldi“? Sat hér götustrákur, reyndar sennilega nokkuð roskinn og grár, við leiðaraskrif!?

Hverjir eru í „kjötkatlaklúbbi afdankaðra 3. flokks stjórnmála-manna, án lýðræðislegrar tilsjónar...“? Eru það kannske t.a.m. Stefan Löfven, Mette Frederiksen, Angela Merkel, Mark Rutte, Sebastian Kurz, Emmanuel Macron, Giuseppe Conte?

Svona fúkyrði og dónaskapur um virta og leiðandi stjórnmála-menn álfunnar eru auðvitað fáheyrð; algjör ósvinna og hreint hneyksli!

Annan ósannan, yfirkeyrðan og skammarlegan málflutning er að finna í m.a. þessari tilvitnun:

Tilvitnun III:

„...og eins þurfa Danir, Pólverjar, Tékkar og fleiri evrulausar þjóðir að ábyrgjast stórfenglega lántöku til að bjarga evrunni enn eina ferðina“.

„Bjarga evrunni“!?

Það rétta hér er þetta: Þegar Evran var innleidd, um síðustu aldamót, var verðgildi hennar gagnvart Bandaríkjadal 1,00 Evra = 1,07 Bandaríkjadalur.

Á þeim tveimur áratugum, sem liðnir eru, hefur Evran nánast alltaf verið vel yfir þessum mörkum, stundum langt yfir þeim, og í dag er ein Evra 1,21 USD.

Evran hefur þannig verið sterkasti og stöðugasti gjaldmiðill heims síðustu 20 árin.

Tilvitnun IV:

„...þar sem hin máttugu ríki ráða því sem þau vilja og núningurinn eykst, en vanhæfni og vanmáttur hinnar ólýðisræðilegu valdastéttar í Brussel er orðin að sérstökum vanda“

Þær fullyrðingar, sem hér eru settar fram, eru líka algjörlega út í hött og fáránlegar.

ESB er lýræðislegasta samband þjóðríkja í sögunni. Engin ný meiriháttar lagasetning eða stefnumörkun tekur gildi fyrr en allar aðildarþjóðirnar 27, og þjóðþing þeirra, svo og Evrópuþingið, með á áttunda hundrað lýðræðislega kjörinna þingmanna, úr allri álfunni, hafa lagt blessun sína yfir málið.

Á sínum tíma neitaði t.a.m. eitt af þjóðþingum Belga, þjóðþing þjóðarbrotsins Vallóna, að samþykkja fríverzlunarsamning við Kanada, sem sambandið hafði unnið hart að í 7 ár. Þá fyrst, þegar þjóðþing Vallóna hafði fengið fram sinn vilja sinn um ákveðnar breytingar, var hægt að staðfesta samninginn.

Á sama hátt fékkst ný 7-ára fjárhagsáætlun ESB, ásamt regluverki um björgunarsjóð fyrir aðildarríkin vegna COVID-19, mánuðum saman ekki samþykkt, vegna þess, að Ungverjar og Pólverjar – varla „kjölfesturíki ESB“ – settu skilyrði og stöðvuðu málið.

Fullyrðingin um „ólýðræðislega valdastétt í Brussel“ er því með öllu staðlausir stafir. Brussel framkvæmir aðeins það, sem aðildarþjóðirnar 27, þjóðþing þeirra og Evrópuþingið hafa samþykkt. Brussel hefur í raun ekkert eigið vald.

Þessi ritstjóri virðist halda Sjálstæðisflokknum í gíslingu með skoðanir og stefnumál flokksins. Er ekki kominn tími á, að flokkurinn losi sig við þau ósannindi, þær rangfærslur og þær slitnu klisjur, sem því fylgja!? Er ekki kominn tími á, að Sjálfstæðisflokkurinn verði sjálfstæður!?




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×