Í kvöld verður förinni að öllum líkindum heitið aftur heim á Norðfjörð eftir mokfiskerí, en Beitir hefur þurft að taka frá bæði Polar Amaroq og Hugin við veiðarnar.
„Það á við um flest skipin og það stefnir í að loðnuvertíðinni ljúki í næstu viku,“ sagði Kristján Már, en upphaflega stóð til að skipstjórinn yrði til viðtals.
„Þeir eru sennilega í síðasta kastinu núna. Við ætluðum að vera með skipstjórann Sturlu Þórðarson í beinni útsendingu, en af því að þeir eru að byrja að dæla upp úr loðnunótunni, þá gat hann ekki verið með okkur í viðtali. Þeir eru sennilega að klára kvótann núna þegar þeir eru búnir að dæla úr þessu kasti.“
Óhætt er að segja að veðrið hafi leikið við skipverjana og fréttamanninn um borð, en fallegt útsýni var frá skipinu og mátti sjá hnúfubaka synda nálægt.
„Maður hugsar með sér: Það er aldeilis gaman að vera sjómaður við þessar aðstæður.“