Marsfárið [e. March Madness] er einn stærsti íþróttaviðburður Bandaríkjanna. Þar mætast bestu háskólalið landsins í útsláttarkeppni sem mun skera úr um hvað sé besta lið landsins. Áhorfið er gríðarlegt og slær flestum NBA-viðureignum við. Hvað þá þegar áhorfendur eru ekki leyfðir á leikjunum.
Baylor Bears höfðu þegar tryggt sér farseðilinn í úrslit en í nótt fór leikur Gonzaga Bulldogs og UCLA Bruins fram. Sigurvegarinn myndi mæta Baylor í úrslitum. Fyrir fram voru Gonzaga sigurstranglegri en liðið hefur ekki enn tapað leik á tímabilinu. Gonzaga hefur leikið 31 leik og landað 31 sigri.
Takist þeim að vinna Baylor á þriðjudaginn verða þeir fyrsta liðið í karlaflokki til að fara taplaust í gegnum tímabil síðan 1976.
Leikurinn í nótt var mögnuð skemmtun, sóknarleikur beggja liða var til fyrirmyndar og eftir venjulegan leiktíma þurfti að framlengja þar sem staðan var jöfn, 81-81. Það virtist sem UCLA hefði tryggt sér aðra framlengingu með því að jafna metin í 90-90 þegar 3.3 sekúndur voru eftir á klukkunni.
Jalen Suggs hafði lítinn áhuga á að fara í aðra framlengingu, hann fékk boltann og óð yfir miðju. Hann tók skot rétt fyrir framan miðju sem small í glerinu og ofan í körfuna er lokaflautið gall.
„Ég hef alltaf viljað stökkva upp á borð eins og Kobe og D-Wade,“ sagði Suggs að leik loknum. Fagnið má sjá hér að neðan sem og hvaðan hann fékk hugmyndina.
.@JalenSuggs2020 had his Kobe/D-Wade moment tonight. pic.twitter.com/Vhk8QH49fD
— Bleacher Report (@BleacherReport) April 4, 2021
Hér að neðan má sjá það helsta úr leiknum sem var virkilega góð skemmtun. Jalen Suggs skoraði 16 stig í leiknum fyrir Gonzaga en Drew Timme var stigahæstur með 25 stig, þar á eftir kom Joel Ayayi með 22 stig.
Hjá UCLA var Johnny Juzang stigahæstur með 29 stig.