Þá er vakin athygli á því að engir viðbragðsaðilar verða á svæðinu frá miðnætti og til hádegis á morgun. Það þýðir að á þeim tíma verða viðbragðsaðilar ekki til taks til að bregðast við óhöppum eða til að mæla gasmengun.
„Þeir sem ætla sér inn á svæðið fyrir hádegi hafi þetta í huga. Gossvæðið er hættulegt og þá ekki síst vegna lélegra loftgæða. Þá hefur gönguleið reynst mörgum erfið. Lögregla getur án fyrirvara lokað fyrir alla umferð inn að gosstöðvunum,” segir í tilkynningunni.
Lítil hætta er þó á uppsöfnun á gasi nærri eldstöðvunum en gasið berst til norðausturs yfir höfuðborgarsvæðið. Nú á ellefta tímanum í dag mældust fjörutíu til fimmtíu míkrógrömm á rúmmetra í Hafnarfirði og í Kópavogi og teljast loftgæði því enn góð að því er segir í tilkynningunni.
Ítrekað er einnig að bannað er að leggja ökutækjum á og við Suðurstrandaveg, heldur skal leggja á skipulögðum bílastæðum. Gangan að gosstöðvunum tekur um þrjá til fjóra tíma fram og til baka fyrir meðalvant göngufólk. Minnt er á mikilvægi þess að hafa síma fullhlaðinn þegar lagt er af stað og að hafa vasaljós eða höfuðljós meðferðis ef gengið er að kvöldi til.