Oddný gerði frumvarp Samfylkingarinnar að umtalsefni undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag en frumvarpið heimilar sóttvarnayfirvöldum að grípa til sóttvarnaaðgerða á borð við skikka fólk til skyldudvalar á sóttvarnahótel við komuna til landsins. Þingflokkurinn hefur þegar lagt fram frumvarpið og á Oddný von á að málið komist til umræðu á morgun.
„Ég treysti því að háttvirtir stjórnarþingmenn komi ekki í veg fyrir að svo brýnt COVID mál komist á dagskrá jafnvel þó það sé lagt fram af stjórnarandstöðuflokki. Við erum öll í þessu saman er það ekki? Veiran spyr ekki um flokksskýrteini.“
Oddný sagði að því fyrr sem sóttvarnayfirvöld næðu að draga úr smitum því fyrr gætu landsmenn lifað eðlilegu lífi. Því væri brýnt að veita sóttvarnalækni þær lagaheimildir sem heimila honum að ráðleggja ráðherra með þeim hætti sem honum finnst best.
„Látum ekki fólkið sem slegið er forréttindablindu ráða för, látum almannahag ráða för.“
Ríkisstjórnin hefur boðað til blaðamannafundar um ráðstafanir á landamærum í Hörpu í dag klukkan fjögur. Hægt verður að fylgjast með fundinum í beinu streymi á Vísi. Að loknum fundi verður spurningum blaðamanna svarað. Við lok ríkisstjórnarfundar í dag vildu ráðherrar ekki upplýsa um hvaða ákvörðun hefði verið tekin er varðar ráðstafanir á landamærunum.
Í nýjum þjóðarpúlsi Gallup kemur fram að ríflega sextíu og tvö prósent landsmanna eru fylgjandi skyldudvöl komufarþega frá há-áhættusvæðum í sóttvarnahúsi við komuna til Íslands. Þrjátíu og fjögur prósent eru sátt við núverandi fyrirkomulag.