Umfjöllun og viðtöl: Grindavík - Njarðvík 91-94 | Njarðvík sótti gull í greipar Grindvíkinga Smári Jökull Jónsson skrifar 23. apríl 2021 21:20 Njarðvík vann einkar mikilvægan sigur á nágrönnum sínum í Grindavík í kvöld. Vísir/Vilhelm Njarðvík vann gríðarlega mikilvægan sigur í Domino´s deild karla í körfuknattleik í kvöld þegar þeir lögðu nágranna sína í Grindavík á útivelli. Það voru heimamenn sem byrjuðu leikinn í kvöld betur. Þeir náðu fljótt forystu og komust mest 15 stigum yfir í stöðunni 36-21 í upphafi annars leikhluta. Þá gerðist hins vegar það sem hefur gerst áður hjá Grindavík. Þeir slökuðu á og hleyptu Njarðvíkingum inn í leikinn í stað þess að hamra járnið á meðan það var heitt. Gestirnir gengu á lagið og náðu að minnka muninn fyrir leikhlé en í hálfleik var staðan 49-42 heimamönnum í vil. Lokakafli Njarðvíkinga í fyrri hálfleik virðist hafa kveikt í þeim. Þeir héldu áfram að minnka muninn og komust yfir í stöðunni 61-59 þegar lítið var eftir af þriðja leikhluta. Marshall Nelson sá hins vegar til þess að Grindvíkingar voru yfir fyrir lokaleikhlutann með því að skora sex stig á hálfri mínútu og koma Grindvíkingum í 65-61. Grindvíkingar virtust láta mótlætið eftir hálfleik fara aðeins í taugarnar á sér. Þeir fengu tæknivillu á bekknum og Joonas Jarveleinen sömuleiðis fyrir tuð inni á vellinum. Heimamenn fóru inn í einhverja skel, hættu að spila almennilega saman og vörnin var slök. Njarðvíkingar nýttu sér þetta. Logi Gunnarsson kom afar sterkur inn í seinni hálfleikinn eftir stigalausan fyrri hálfleik. Hann setti niður mikilvægar körfur og Njarðvík komst mest sex stigum fyrir, 81-75 þegar um fimm mínútur voru eftir. Þá forystu létu þeir ekki af hendi. Grindvíkingar fengu tækifæri til að jafna í lokasókninni en hún var algjörlega misheppnuð og Dagur Kár Jónsson endaði á að skjóta erfiðu skoti sem var aldrei nálægt því að fara niður. Njarðvíkingar fögnuðu gríðarlega enda sigurinn kærkominn. Af hverju vann Njarðvík? Þeir sýndu mikinn karakter og spiluðu vel saman sem lið, sérstaklega í seinni hálfleiknum. Gestirnir byrjuðu illa og þegar þeir voru komnir fimmtán stigum undir var fátt sem benti til annars en að þeir myndu tapa, sérstaklega með það í huga að þeir áttu að baki sex leikja taphrinu áður en hlé var gert á Domino´s deildinni. En þeir unnu sig smátt og smátt inn í leikinn, fögnuðu vel öllum skrefum fram á við á meðan Grindvíkingar hengdu haus og kvörtuðu yfir dómum, þó þeir hafi haft eitthvað til síns máls á köflum eins og gengur og gerist í öllum leikjum og hjá öllum liðum. Undir lokin voru Njarðvíkingar síðan skynsamir, settu stórar körfur og sigldu sigrinum í höfn. Þessir stóðu upp úr: Maciek Baginski var frábær hjá Njarðvík og þvílík lukka fyrir þá að hann sé kominn aftur í liðið eftir meiðsli. Hann skoraði 26 stig, setti stórar körfur og dró vagninn í fyrri hálfleik þegar aðrir voru ekki að spila vel. Logi Gunnarsson var stigalaus í fyrri hálfleik en kom frábærlega inn í þann síðari. Kyle Johnson, Antonio Hester og Mario Matosevic lögðu allir í púkkið og liðsheild Njarðvíkur skóp þennan sigur. Hjá Grindavík var Dagur Kár öflugur en hefur hitt betur. Kazembe Abif byrjaði vel en lenti fljótt í villuvandræðum. Aðrir áttu sína spretti en heilt yfir geta allir leikmenn Grindavíkur gert betur en þeir gerðu í kvöld. Hvað gekk illa? Grindvíkingum gengur illa að halda haus á mikilvægum augnablikum í leikjum. Þeir ná oft forystu sem þeir missa svo niður og fyrst og fremst þurfa þeir að skoða andlega þáttinn í sínum leik því þeir hafa á að skipa leikmönnum sem eru virkilega góðir í körfubolta. Heimamenn þurfa sömuleiðis að vera skynsamari í sínum sóknaraðgerðum. Varnarlega geta bæði lið gert betur þó svo að vörn Njarðvíkur hafi batnað eftir því sem á leið leikinn. Hvað gerist næst? Njarðvík á næst heimaleik gegn Hetti. Afar mikilvægur leikur í fallbaráttunni og með sigri þar stíga Njarðvíkingar stórt skref í átt að sæti í deildinni á næsta tímabili. Grindavík heldur í Garðabæinn og mætir þar Stjörnunni. Liðin hafa nokkra hildina háð á síðustu misserum og verður fróðlegt að fylgjast með þeirri baráttu. Daníel Guðni: Margir dómar í seinni hálfleik algjörlega út úr korti Daníel Guðni var svekktur eftir tapið gegn Njarðvík í kvöld.Vísir Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari Grindavíkur, var vitaskuld ekki ánægður með tapið gegn Njarðvík í kvöld en með sigri hefðu Grindvíkingar komið sér í ágæta stöðu í baráttunni um sæti í úrslitakeppni. „Það var mjög lítið í gangi. Menn lögðu á sig í vörn í fyrsta leikhluta og héldu síðan að þetta yrði eitthvað þægilegt. Þeir spiluðu takmarkaða vörn á okkur og við héldum að við gætum tekið þetta með veikari hendinni. Aðgerðir okkar í vörninni voru lélegar og menn ekki að leggja á sig eins og þeir eiga að gera,“ sagði Daníel þegar Vísir ræddi við hann að leik loknum í kvöld. Daníel var sáttari með sóknarleikinn og en sagði vanta upp á ákvarðanatökurnar. „Við eigum að vinna alla leiki ef við skorum yfir 90 stig. Að sama skapi voru aðgerðir í sókn sem leiddu til auðveldra skota fyrir Njarðvík á hinum endanum. Ákvarðanatökur í sókn voru galnar oft á tíðum, menn að taka fyrsta skot sem bauðst. Það er gjörsamlega óþolandi,“ sagði Daníel. Grindavík fékk tækifæri til að jafna undir lokin en síðasta sókn liðsins virkaði óskipulögð og Daníel Guðni eflaust þegið að eiga leikhlé til að setja þá sókn betur upp. „Algjörlega. Maður reynir að haga leik sínum undir lokin þannig að maður geti skorað en þetta var bara erfitt skot og því fór sem fór." Þegar Njarðvíkingar taka yfirhöndina í þriðja leikhluta virtust Grindvíkingar ekki alveg halda haus, fá tæknivillu á bekkinn sem og fyrir tuð inni á vellinum. „Þetta er dýrt. Ég átta mig ekki alveg á tæknivillunni sem ég fæ á bekknum fyrir að tala við dómarann og benda honum á að það var slegið í boltann. Það voru margir dómar í seinni hálfleik algjörlega út úr kortinu og mér fannst við líða fyrir það. Villufjöldinn var svipaður en á köflum var þetta ekki alveg í takti við það sem maður hefur séð á þessu tímabili.“ Grindvíkingar lentu í villuvandræðum og Ólafur Ólafsson, Kazembe Abif og Marshall Nelson spiluðu allir með fjórar villur stærstan hluta fjórða leikhluta. „Það olli vandræðum. Það voru gefnar mjög margar villur á okkur í seinni hálfleik, mjög lítið í fyrri hálfleik og menn kannski eitthvað að jafna þetta út. Grindvíkingar eiga eftir heimaleiki gegn Tindastól og ÍR sem eru í baráttunni við þá um sæti í úrslitakeppninni. „Jákvætt eða ekki jákvætt. Við þurfum bara að spila körfubolta, spila varnarleik og gera þetta fyrir hvern annan. Ef við gerum það ekki þá getum við bara gleymt þessu.“ Einar Árni: Pásan kom á góðum tíma Einar Árni sagðist gríðarlega stoltur af sínu liði eftir leikinn í kvöld.vísir/bára Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkur, var sigurreifur eftir sigurinn í Grindavík í kvöld. Fyrir Covid-pásuna höfðu hans menn tapað sex leikjum í röð og sigurinn því kærkominn. „Ég er hrikalega stoltur af mínum mönnum og virkilega ánægður með þetta stóra hjarta sem við sýnum hér í dag,“ sagði Einar Árni við blaðamann Vísis eftir leik. Grindavík komst mest 15 stigum yfir snemma leiks en Njarðvíkingar sýndu mikinn karakter í að koma til baka og snúa leiknum sér í hag. „Við töluðum um það að við séum búnir að vera 10-14 stigum yfir í síðustu leikjum sem við höfum tapað. Ég held að menn hafi litið á það sem jákvæða áskorun að vera búnir að eiga ágætan annan leikhluta og vinna forystuna úr fimmtán stigum í sjö.“ „Seinni hálfleikurinn var virkilega góður. Við þéttum varnarleikinn til muna, settum stór skot og Maciek (Baginski) og Logi (Gunnarsson) voru náttúrulega frábærir í kvöld,“ en þessir reynslumiklu menn drógu vagninn. Maciek skoraði 26 stig og Logi setti 11 stig í seinni hálfleik. Fyrir Covid-pásuna höfðu Njarðvíkingar tapað sex leikjum í röð og má segja að pásan, sem enginn vildi fá, hafði komið á ágætum tíma fyrir Njarðvík. „Hún gerði það. Það er erfitt að tapa og stundum voru bara 1-2 dagar á milli og þá er erfitt að hreinsa hugann. Við vorum líka í þeirri stöðu að Logi var meiddur og ég veit ekki hvort hann hefði spilað nokkurn leik ef þetta hefði farið eftir áætlun.“ „Auðvitað var erfitt að æfa í þrjár vikur í einhverjum þrota einstaklingsæfingum. Við náðum að vinna menn í heilsu til baka og við náðum að skerpa á mönnum á þessu þriðja undirbúningstímabili.“ Sigurinn var því kærkominn fyrir Njarðvík sem skapaði sér smá andrými í fallbaráttunni. „Okkur finnst við hafa verið fjandi nálægt því ansi oft í þessari sex leikja taprinu að ná í sigra. Þó við höfum ekki verið ánægðir með spilamennskuna þá látum við andstæðingana leka fram úr í fjórum af þessum leikjum. Ég er bara hrikalega ánægður og gott að geta verðlaunað okkar alvöru stuðningsmenn sem styðja okkur í brekku.“ Ólafur: Við lögðumst bara niður og töpuðum leiknum Ólafur Ólafsson var ekki sáttur í kvöld.vísir/daníel „Við vorum flottir í fyrsta leikhluta og komnir einhverjum 15 stigum yfir. Þá förum við í þetta týpíska sem við höfum verið í núna í vetur, að halda að þetta sé komið. Eitthvað „walk in the park“ og við bara lögðumst niður og töpuðum leiknum,“ sagði Ólafur þegar Vísir ræddi við hann eftir leik í kvöld. Grindvíkingar byrjuðu leikinn betur og á tímabili virtist eins og þeir ætluðu hreinlega að klára leikinn í fyrri hálfleik. Góður lokakafli í öðrum leikhluta kom hins vegar Njarðvíkingum aftur á bragðið. „Við erum búnir að ræða þetta en við þurfum að hætta að ræða hlutina og bara gera þá. Ef það þarf að gefa einhverjum á kjaftinn til að kveikja í mönnum þá þarf bara einhver að taka það á sig að fara út úr húsi.“ „Þetta var arfaslakt en við sýndum í fyrri hálfleik að við erum ógeðslega góðir. Við höfum ekki verið að rústa leikjum í vetur, allir leikir hafa verið að detta okkar megin eða hjá hinu liðinu. Þetta var bara lélegt.“ Í seinni hálfleik flautuðu dómararnir töluvert mikið af villum og Ólafur, Kazembe Abif og Marshall Nelson lentu allir í villuvandræðum. Heimamenn fengu sömuleiðis tæknivillur fyrir tuð og voru enn að kvarta í dómurunum eftir að lokaflautið gall. „Línan var allt í lagi. Við töpuðum ekki því dómararnir voru slakir eða að einhverjir dómar féllu með þeim. Það er bara eins og það er, við fáum einhverja villu og svo fá þeir ekki fyrir það sama hinu megin og við látum það fara í taugarnar á okkur.“ Eruð þið kannski að láta þetta fara það mikið í taugarnar á ykkur að það trufli? „Greinilega, við töpum alltaf þegar við förum að gera þetta. Við þurfum bara að líta í eigin barm sem einstaklingar og laga til hjá sjálfum okkur. Þetta er ekki liðið og hver og einn leikmaður þarf að laga til. Þeir komast einu stigi yfir og við látum eins og þeir séu 30 stigum undir og að við þurfum að sigra heiminn í staðinn fyrir að spila saman.“ „Við þurfum að líta inn á við sem einstaklingar og laga til hjá okkur.“ Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur. Dominos-deild karla UMF Grindavík UMF Njarðvík Íslenski körfuboltinn Körfubolti
Njarðvík vann gríðarlega mikilvægan sigur í Domino´s deild karla í körfuknattleik í kvöld þegar þeir lögðu nágranna sína í Grindavík á útivelli. Það voru heimamenn sem byrjuðu leikinn í kvöld betur. Þeir náðu fljótt forystu og komust mest 15 stigum yfir í stöðunni 36-21 í upphafi annars leikhluta. Þá gerðist hins vegar það sem hefur gerst áður hjá Grindavík. Þeir slökuðu á og hleyptu Njarðvíkingum inn í leikinn í stað þess að hamra járnið á meðan það var heitt. Gestirnir gengu á lagið og náðu að minnka muninn fyrir leikhlé en í hálfleik var staðan 49-42 heimamönnum í vil. Lokakafli Njarðvíkinga í fyrri hálfleik virðist hafa kveikt í þeim. Þeir héldu áfram að minnka muninn og komust yfir í stöðunni 61-59 þegar lítið var eftir af þriðja leikhluta. Marshall Nelson sá hins vegar til þess að Grindvíkingar voru yfir fyrir lokaleikhlutann með því að skora sex stig á hálfri mínútu og koma Grindvíkingum í 65-61. Grindvíkingar virtust láta mótlætið eftir hálfleik fara aðeins í taugarnar á sér. Þeir fengu tæknivillu á bekknum og Joonas Jarveleinen sömuleiðis fyrir tuð inni á vellinum. Heimamenn fóru inn í einhverja skel, hættu að spila almennilega saman og vörnin var slök. Njarðvíkingar nýttu sér þetta. Logi Gunnarsson kom afar sterkur inn í seinni hálfleikinn eftir stigalausan fyrri hálfleik. Hann setti niður mikilvægar körfur og Njarðvík komst mest sex stigum fyrir, 81-75 þegar um fimm mínútur voru eftir. Þá forystu létu þeir ekki af hendi. Grindvíkingar fengu tækifæri til að jafna í lokasókninni en hún var algjörlega misheppnuð og Dagur Kár Jónsson endaði á að skjóta erfiðu skoti sem var aldrei nálægt því að fara niður. Njarðvíkingar fögnuðu gríðarlega enda sigurinn kærkominn. Af hverju vann Njarðvík? Þeir sýndu mikinn karakter og spiluðu vel saman sem lið, sérstaklega í seinni hálfleiknum. Gestirnir byrjuðu illa og þegar þeir voru komnir fimmtán stigum undir var fátt sem benti til annars en að þeir myndu tapa, sérstaklega með það í huga að þeir áttu að baki sex leikja taphrinu áður en hlé var gert á Domino´s deildinni. En þeir unnu sig smátt og smátt inn í leikinn, fögnuðu vel öllum skrefum fram á við á meðan Grindvíkingar hengdu haus og kvörtuðu yfir dómum, þó þeir hafi haft eitthvað til síns máls á köflum eins og gengur og gerist í öllum leikjum og hjá öllum liðum. Undir lokin voru Njarðvíkingar síðan skynsamir, settu stórar körfur og sigldu sigrinum í höfn. Þessir stóðu upp úr: Maciek Baginski var frábær hjá Njarðvík og þvílík lukka fyrir þá að hann sé kominn aftur í liðið eftir meiðsli. Hann skoraði 26 stig, setti stórar körfur og dró vagninn í fyrri hálfleik þegar aðrir voru ekki að spila vel. Logi Gunnarsson var stigalaus í fyrri hálfleik en kom frábærlega inn í þann síðari. Kyle Johnson, Antonio Hester og Mario Matosevic lögðu allir í púkkið og liðsheild Njarðvíkur skóp þennan sigur. Hjá Grindavík var Dagur Kár öflugur en hefur hitt betur. Kazembe Abif byrjaði vel en lenti fljótt í villuvandræðum. Aðrir áttu sína spretti en heilt yfir geta allir leikmenn Grindavíkur gert betur en þeir gerðu í kvöld. Hvað gekk illa? Grindvíkingum gengur illa að halda haus á mikilvægum augnablikum í leikjum. Þeir ná oft forystu sem þeir missa svo niður og fyrst og fremst þurfa þeir að skoða andlega þáttinn í sínum leik því þeir hafa á að skipa leikmönnum sem eru virkilega góðir í körfubolta. Heimamenn þurfa sömuleiðis að vera skynsamari í sínum sóknaraðgerðum. Varnarlega geta bæði lið gert betur þó svo að vörn Njarðvíkur hafi batnað eftir því sem á leið leikinn. Hvað gerist næst? Njarðvík á næst heimaleik gegn Hetti. Afar mikilvægur leikur í fallbaráttunni og með sigri þar stíga Njarðvíkingar stórt skref í átt að sæti í deildinni á næsta tímabili. Grindavík heldur í Garðabæinn og mætir þar Stjörnunni. Liðin hafa nokkra hildina háð á síðustu misserum og verður fróðlegt að fylgjast með þeirri baráttu. Daníel Guðni: Margir dómar í seinni hálfleik algjörlega út úr korti Daníel Guðni var svekktur eftir tapið gegn Njarðvík í kvöld.Vísir Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari Grindavíkur, var vitaskuld ekki ánægður með tapið gegn Njarðvík í kvöld en með sigri hefðu Grindvíkingar komið sér í ágæta stöðu í baráttunni um sæti í úrslitakeppni. „Það var mjög lítið í gangi. Menn lögðu á sig í vörn í fyrsta leikhluta og héldu síðan að þetta yrði eitthvað þægilegt. Þeir spiluðu takmarkaða vörn á okkur og við héldum að við gætum tekið þetta með veikari hendinni. Aðgerðir okkar í vörninni voru lélegar og menn ekki að leggja á sig eins og þeir eiga að gera,“ sagði Daníel þegar Vísir ræddi við hann að leik loknum í kvöld. Daníel var sáttari með sóknarleikinn og en sagði vanta upp á ákvarðanatökurnar. „Við eigum að vinna alla leiki ef við skorum yfir 90 stig. Að sama skapi voru aðgerðir í sókn sem leiddu til auðveldra skota fyrir Njarðvík á hinum endanum. Ákvarðanatökur í sókn voru galnar oft á tíðum, menn að taka fyrsta skot sem bauðst. Það er gjörsamlega óþolandi,“ sagði Daníel. Grindavík fékk tækifæri til að jafna undir lokin en síðasta sókn liðsins virkaði óskipulögð og Daníel Guðni eflaust þegið að eiga leikhlé til að setja þá sókn betur upp. „Algjörlega. Maður reynir að haga leik sínum undir lokin þannig að maður geti skorað en þetta var bara erfitt skot og því fór sem fór." Þegar Njarðvíkingar taka yfirhöndina í þriðja leikhluta virtust Grindvíkingar ekki alveg halda haus, fá tæknivillu á bekkinn sem og fyrir tuð inni á vellinum. „Þetta er dýrt. Ég átta mig ekki alveg á tæknivillunni sem ég fæ á bekknum fyrir að tala við dómarann og benda honum á að það var slegið í boltann. Það voru margir dómar í seinni hálfleik algjörlega út úr kortinu og mér fannst við líða fyrir það. Villufjöldinn var svipaður en á köflum var þetta ekki alveg í takti við það sem maður hefur séð á þessu tímabili.“ Grindvíkingar lentu í villuvandræðum og Ólafur Ólafsson, Kazembe Abif og Marshall Nelson spiluðu allir með fjórar villur stærstan hluta fjórða leikhluta. „Það olli vandræðum. Það voru gefnar mjög margar villur á okkur í seinni hálfleik, mjög lítið í fyrri hálfleik og menn kannski eitthvað að jafna þetta út. Grindvíkingar eiga eftir heimaleiki gegn Tindastól og ÍR sem eru í baráttunni við þá um sæti í úrslitakeppninni. „Jákvætt eða ekki jákvætt. Við þurfum bara að spila körfubolta, spila varnarleik og gera þetta fyrir hvern annan. Ef við gerum það ekki þá getum við bara gleymt þessu.“ Einar Árni: Pásan kom á góðum tíma Einar Árni sagðist gríðarlega stoltur af sínu liði eftir leikinn í kvöld.vísir/bára Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkur, var sigurreifur eftir sigurinn í Grindavík í kvöld. Fyrir Covid-pásuna höfðu hans menn tapað sex leikjum í röð og sigurinn því kærkominn. „Ég er hrikalega stoltur af mínum mönnum og virkilega ánægður með þetta stóra hjarta sem við sýnum hér í dag,“ sagði Einar Árni við blaðamann Vísis eftir leik. Grindavík komst mest 15 stigum yfir snemma leiks en Njarðvíkingar sýndu mikinn karakter í að koma til baka og snúa leiknum sér í hag. „Við töluðum um það að við séum búnir að vera 10-14 stigum yfir í síðustu leikjum sem við höfum tapað. Ég held að menn hafi litið á það sem jákvæða áskorun að vera búnir að eiga ágætan annan leikhluta og vinna forystuna úr fimmtán stigum í sjö.“ „Seinni hálfleikurinn var virkilega góður. Við þéttum varnarleikinn til muna, settum stór skot og Maciek (Baginski) og Logi (Gunnarsson) voru náttúrulega frábærir í kvöld,“ en þessir reynslumiklu menn drógu vagninn. Maciek skoraði 26 stig og Logi setti 11 stig í seinni hálfleik. Fyrir Covid-pásuna höfðu Njarðvíkingar tapað sex leikjum í röð og má segja að pásan, sem enginn vildi fá, hafði komið á ágætum tíma fyrir Njarðvík. „Hún gerði það. Það er erfitt að tapa og stundum voru bara 1-2 dagar á milli og þá er erfitt að hreinsa hugann. Við vorum líka í þeirri stöðu að Logi var meiddur og ég veit ekki hvort hann hefði spilað nokkurn leik ef þetta hefði farið eftir áætlun.“ „Auðvitað var erfitt að æfa í þrjár vikur í einhverjum þrota einstaklingsæfingum. Við náðum að vinna menn í heilsu til baka og við náðum að skerpa á mönnum á þessu þriðja undirbúningstímabili.“ Sigurinn var því kærkominn fyrir Njarðvík sem skapaði sér smá andrými í fallbaráttunni. „Okkur finnst við hafa verið fjandi nálægt því ansi oft í þessari sex leikja taprinu að ná í sigra. Þó við höfum ekki verið ánægðir með spilamennskuna þá látum við andstæðingana leka fram úr í fjórum af þessum leikjum. Ég er bara hrikalega ánægður og gott að geta verðlaunað okkar alvöru stuðningsmenn sem styðja okkur í brekku.“ Ólafur: Við lögðumst bara niður og töpuðum leiknum Ólafur Ólafsson var ekki sáttur í kvöld.vísir/daníel „Við vorum flottir í fyrsta leikhluta og komnir einhverjum 15 stigum yfir. Þá förum við í þetta týpíska sem við höfum verið í núna í vetur, að halda að þetta sé komið. Eitthvað „walk in the park“ og við bara lögðumst niður og töpuðum leiknum,“ sagði Ólafur þegar Vísir ræddi við hann eftir leik í kvöld. Grindvíkingar byrjuðu leikinn betur og á tímabili virtist eins og þeir ætluðu hreinlega að klára leikinn í fyrri hálfleik. Góður lokakafli í öðrum leikhluta kom hins vegar Njarðvíkingum aftur á bragðið. „Við erum búnir að ræða þetta en við þurfum að hætta að ræða hlutina og bara gera þá. Ef það þarf að gefa einhverjum á kjaftinn til að kveikja í mönnum þá þarf bara einhver að taka það á sig að fara út úr húsi.“ „Þetta var arfaslakt en við sýndum í fyrri hálfleik að við erum ógeðslega góðir. Við höfum ekki verið að rústa leikjum í vetur, allir leikir hafa verið að detta okkar megin eða hjá hinu liðinu. Þetta var bara lélegt.“ Í seinni hálfleik flautuðu dómararnir töluvert mikið af villum og Ólafur, Kazembe Abif og Marshall Nelson lentu allir í villuvandræðum. Heimamenn fengu sömuleiðis tæknivillur fyrir tuð og voru enn að kvarta í dómurunum eftir að lokaflautið gall. „Línan var allt í lagi. Við töpuðum ekki því dómararnir voru slakir eða að einhverjir dómar féllu með þeim. Það er bara eins og það er, við fáum einhverja villu og svo fá þeir ekki fyrir það sama hinu megin og við látum það fara í taugarnar á okkur.“ Eruð þið kannski að láta þetta fara það mikið í taugarnar á ykkur að það trufli? „Greinilega, við töpum alltaf þegar við förum að gera þetta. Við þurfum bara að líta í eigin barm sem einstaklingar og laga til hjá sjálfum okkur. Þetta er ekki liðið og hver og einn leikmaður þarf að laga til. Þeir komast einu stigi yfir og við látum eins og þeir séu 30 stigum undir og að við þurfum að sigra heiminn í staðinn fyrir að spila saman.“ „Við þurfum að líta inn á við sem einstaklingar og laga til hjá okkur.“ Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.
Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.
Körfuboltakvöld rifjaði upp gamlar minningar: Hermann skammaðist sín fyrir slaufuna og gelið í hárinu