Skoðun

Af skotvopnum og grasbítum

Ágústa Ágústsdóttir skrifar

Í Bændablaðinu þann 15.4.2021 skrifaði Ólafur Arnalds prófessor, grein sem fékk mig til að staldra við. Þar beinir hann m.a. orðum sínum til formanns Bændasamtakanna með setningunni „Það hefur löngum tíðkast að skjóta sendiboðann, ekki síst ef skortir vilja til að horfast í augu við staðreyndir. En það fer formanninum engan veginn að munda slík skotvopn“.

Þar er Ólafur enn og aftur að tala um og vitna í Grólindarkortin (rofkortin) og fyrstu niðurstöður þess verkefnis sem staðfesti allt að hans mati, sem áður hefur verið sagt um ástand landsins, og að afneitun á slæmu ástandi lands, þar sem það á við sé alls ekki hagur bændastéttarinnar.

Fyrst skal benda á að síðan 1980 hefur fé á Íslandi fækkað um 50%, úr 827.000 niður í 415.000 (2019).

Þar af eru aðeins 16% (65.000) á suðurlandi þar sem afréttarbeit er helst gagnrýnd (inni í þessum tölum er ekki meðtalinn sá fjöldi fjár sem bændur beita á sínum eigin heimalöndum og senda ekki á afrétt). Þar er samdráttur líka mestur eða 34% frá árunum 1998-2019.

Ólafur talar einnig um að tilraunir til að taka á þeim vanda sem felst í hrundum vistkerfum landsins hafi misheppnast. Það er einkennilegt að eins vel menntaður og fróður maður og Ólafur er skuli halda því fram, að gróðurframvindan hafi engin verið í 30 ár en það er einmitt aldur rofkorta hans sem hann og fleiri vitna óþreyttir í, þrátt fyrir að Grólindarverkefnið sé nýtt af nálinni og rétt skriðið úr eggi. Við höfum horft á hopandi jökla og breytt gróðurfar síðustu áratugina en einhverra hluta vegna virðast rofkortin eiga að standast tímans tönn. En annað hefur komið á daginn. Rofkortin eru úrelt.

Í ágúst 2020 fóru bændur og upprekstraraðilar á Landmannaafrétt fram á vettvangsskoðun með Landgræðslunni því mönnum þótti rofkortin alls ekki sýna raunverulegt ástand landsins. Við þeirri beiðni var orðið og niðurstaðan var óumdeilanleg. Í minnisblaði Landgræðslunnar dagsettu 11.9.2020 stendur „Fundir með upprekstraraðilum á vettvangi þar sem farið er yfir flokkun viðkomandi svæða og forsendur á bak við eru mjög jákvæðir og þyrftu að koma til víðar. Mjög æskilegt er að uppfæra rofkortið sem gildir 1/3 af ástandsmati Grólindar, bæði í tíma og skala. Skoða þarf flokkum uppgræðslusvæða fyrir næstu útgáfu kortsins.“

Sigurður Hjalti Magnússon gróðurvistfræðingur birti mjög áhugaverða grein í Bændablaðinu 11. maí 2020 um sauðfjárbeit og gróðurbreytingar á afrétti Hrunamanna. Sigurður hefur fylgst með og rannsakað gróður og gróðurbreytingar við Heygil frá árinu 1981. Lagðir voru út tuttugu fastir gróðurreitir á land sem í upphafi var á mismunandi stigum rofs og endurgræðslu. Fjórtán reitir voru á beittu landi en sex girtir af og friðaðir fyrir beit.

„Þegar rannsóknirnar hófust við Heygil var þarna mikil gróðureyðing, háar torfur, opnir rofjaðrar og mikill uppblástur úr moldum og rofabörðum. Þá var fjárfjöldi í hámarki í afréttinum og gróður mikið bitinn.“

Í tengslum við síendurbirtar áróðursmyndir af sauðfé í rofabörðum má benda á eftirfarandi skrif Sigurðar. „Þótt það hafi ekki verið rannsakað sérstaklega má ætla að traðk, teðsla og þvag sauðfjár hafi haft jákvæð áhrif á landnám plantna á moldum og í rofjöðrum. Það er löngu þekkt að fræforði í jarðvegi er langmestur í efstu lögum jarðvegs en snarminnkar með dýpt. Á stöðum þar sem rof er mikið, svo sem í virkum rofabörðum og á moldum, er því skortur á fræi sökum þess að sá jarðvegur sem rofnar er gamall og nánast frælaus. Vegna rofsins kemur fræregn frá nágrenninu illa að notum því að fræ flyst að mestu í burtu og nær því ekki að spíra í rofinu sjálfu. Við slíkar aðstæður getur traðk ráðið úrslitum um landnám. Í förum eftir sauðfé getur fræ safnast fyrir og náð að spíra. Teðsla og þvag getur síðan hjálpað til og orðið til þess að plöntur komist á legg. Telur greinarhöfundur þetta hafa verið algengt í rofabörðum á afrétti Hrunamanna á síðustu árum. Líklegt er að þessi jákvæðu áhrif sauðfjárbeitar minnki verulega ef beitarálag verður of mikið því að aukin beit á plöntum fer þá að hafa neikvæð áhrif á landnámið.“

Hér á meðfylgjandi myndum Sigurðar má svo sjá óumdeilanlega uppgræðslu rofabarðs og umhverfi. Mynd A var tekin árið 1988, mynd B árið 2009 og mynd C árið 2019 (Takið sérstaklega eftir sauðfénu í rofabarðinu á mynd B).

Land tók að gróa upp, mest eftir 1990. Traðk, teðsla og þvag frá sauðfé hefur væntanlega haft þarna veruleg áhrif og flýtt fyrir landnámi plantna, en einnig fækkun fjár í afrétti og hlýnandi verðurfar.“

Þá talar Sigurður um að eðlilegt sé að ræða beit og uppgræðslu á afréttum í víðu samhengi. „Fullyrða má að fækkun fjár, hlýnandi loftslag og uppgræðsla hafi stuðlað að þeim gróðurbreytingum sem orðið hafa í afréttinum á síðustu áratugum. Þótt land í afrétti sé í framför er þar enn allvíða talsvert rof og enn víðáttumikil, lítt gróin svæði neðan 500 m hæðar sem ættu að geta klæðst samfelldum gróðri.“

Þá dregur Sigurður upp fjórar mismunandi leiðir um nýtingu og uppgræðsluaðgerðir í afréttinum.

Það er að mínu mati verulega áhugavert og eykur virðingu mína þegar prófessorar og sérfræðingar bera þá gæfu og hæfileika í sínum störfum að tala ekki niður til annara stétta og kunna að fjalla opið um málefni frá öllum hliðum með sínum kostum og göllum. Sigurður virðist hafa náð góðri tengingu við bændur þar sem gagnkvæm virðing og samstarf hefur náð að skjóta rótum og dafna.

Þeir sem vilja kynna sér rannsóknir og skrif Sigurðar betur geta það hér:

https://www.bbl.is/frettir/fraedsluhornid/saudfjarbeit-og-grodurbreytingar-a-afretti-hrunamanna

https://www.youtube.com/watch?v=iPTHCHnRDDE

Um það er ekki deilt að á Íslandi finnast enn viðkvæm og illa gróin svæði og sum hver þyrftu meiri beitarfriðunar við. En þau þarf að skoða hvert fyrir sig með víðsýni að leiðarljósi. Það væri einnig skynsamleg nálgun að fara viðurkenna, að sé sauðkindinni rétt beitt stöndum við uppi með öfluga landgræðsluvél í höndunum. En þar liggur einmitt stærsta verkefnið. Taka þarf hvern afrétt og bera saman ástand fyrr og nú. Hver var fjárfjöldinn þá, álag beitar og ástand gróðurs samanborið við fjárfjölda, beitarálag og ástand gróðurs í dag ? Leyfum Grólindarverkefninu að halda áfram að þroskast og stækka enda skal því haldið til haga að það verkefni varð eingöngu til vegna frumkvæðis bænda sem Landgræðslan kom síðar inn í, en ekki öfugt. Hættum svo þeim ljóta áróðri að tala um að land sé í hnignun. Það er bara einfaldlega ekki þannig.

Og til að enda greinina á svipuðum nótum og ég byrjaði. Það er sorgleg sjón að horfa upp á sendiboðann sjálfan svo ólman að munda skotvopn sitt til að ná góðu miði að honum tekst ítrekað að skjóta sjálfan sig í fótinn, ekki síst þegar skortir viljann til að horfast í augu við staðreyndir og fer prófessornum engan veginn að munda slíkt skotvopn.

Höfundur er sauðfjárbóndi og náttúruunnandi.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×