Bókina kynnir hann á sýningu sinni á HönnunarMars sem fer fram í Ásmundarsal. Hann segir að bókin veki upp bæði kátínu og gleði.
„Ég er sjálfur að gefa hana út en bókin kemur undir nafni Grazie! Press sem er útgáfu merki hönnuða bókarinnar Helgu Dögg og Bobby Breiðholts.“
Áhugi frá níu ára aldri
Loji heldur uppi Instagram síðu þar sem hann birtir myndir af húsum eftir Sigvalda, en hann hefur skoðað þessi hús alveg frá því í æsku.
„Ætli ég hafi ekki verið svona níu ára gamall þegar fór fyrst að taka eftir litunum hans, vissi reyndar ekki hver hann var þá en ég hef allavega elt þessa liti síðan þá,“ útskýrir Loji.
„Þetta hefur verið svolítið langt ferli að safna öllu efninu en ég byrjaði að taka myndir um 2015 en hönnun bókarinnar hefur kannski tekið um ár.“

Á Sýningunni má sjá myndir af húsum Sigvalda, bókina Ástarbréf til Sigvalda og svo módel af Sigvalda húsi sem komst aldrei upp af teikningunum.
„Mér finnst það ótrúlega fallegt, það er hús sem var aldrei byggt en átti að rísa á lóð í hverfinu sem ég ólst upp í Sólheimum 42. Gunnhildur Melsteð arkitekt gerði módelið og það er svo ótrúlega vel og fallega gert að ég er eiginlega á algjörum bömmer að þetta hús hafi aldrei verið byggt.“
Innblásið af húsfélagsbeiðni
Á sýningunni er einnig verk eftir Loja sem innblásið er af Sigvaldahúsunum.
„Það er innblásið af tölvupósti sem ég fékk frá húsfélagi Hverfisgötu 82 um að biðja mig um að koma með litatillögu fyrir húsið.“
Ásmundasalur seldi miða í rútuferð þar sem Loji sýnir og segir frá húsum Sigvalda. Uppselt var í fyrstu ferðina en þegar þetta er skrifað er enn hægt að nálgast sæti í aukaferðina sem er á morgun klukkan 15.
Það sem heillar hann við hönnun Sigvalda er litir, form, og hinn látlausi elegans í byggingunum hans. Aðspurður hvaða Sigvaldahús séu í mestu uppáhaldi svarar Logi:
„Skildinganes 23, sem er á sölu, Búðareyri 5, sem er á sölu líka, Melabraut 30 og Háaleitisbraut 109-111.“
Gráhærður af spenningi
Loji segir að algjör fágun og sjálfbærni einkenni HönnunarMars í ár. Sjálfur ætlar hann að skoða nokkrar sýningar þó að hann sé líka að sýna sjálfur í Ásmundarsal.
„Ég verð að sjá sýninguna hjá henni Kristínu Þorkells á hönnunarsafninu, hennar hönnun hefur haft svo gríðarleg áhrif á mitt umhverfi í gegnum tíðina! Funky Terrazzo er líka tryllt, peysa með öllu, shape, repeat og þessi mygluprentari er að gera mig gráhærðan af spenningi.“
Hann hvetur fólk til að skoða allt það frábæra sem er að gerast á HönnunarMars. Eftir hátíð ætlar hann að byrja að hugsa um tónlistina aftur.
„Ætli maður fari ekki að rífa hljómsveitina aftur í gang fyrst að allir eru að fá bóluefni hægri vinstri. Bandið mitt Bjartar sveiflur skulda held ég allavega eitt rosalegt dansiball.“
Hægt er að fylgjast með loga á Instagram undir nöfnunum @loji.its.official og @lojiho og í gegnum síðuna hverfisgalleri.is