Ákvörðun heilbrigðisráðherra um að ráðast í þetta verkefni er byggð á niðurstöðum skýrslu sem unnin var fyrir heilbrigðisráðuneytið og felur í sér mat á því hvernig heilbrigðisþjónustan mætir ólíkum þörfum kynjanna.
Sú skýrsla var unnin af Finnborgu Salome Steinþórsdóttur, nýdoktor í kynjafræði. Í henni kemur meðal annars fram að ofbeldi í nánum samböndum, eða heimilisofbeldi, hafi meiriháttar afleiðingar fyrir lýðheilsu og þátttöku kvenna í samfélaginu.
Heimilisofbeldi geti meðal annars leitt til áverka, krónískra sjúkdóma, örorku eða dauða. Þriðjung morða á konum í heiminum megi rekja til ofbeldis í nánum samböndum.
Rannsóknin bendir einnig til þess að tæplega fjórðungur kvenna á Íslandi hafi orðið fyrir ofbeldi í nánu sambandi einhvern tíma frá 16 ára aldri. Barnshafandi konur sem verði fyrir ofbeldi í nánum samböndum séu 16 prósent líklegri en aðrar til að missa fóstur og 41 prósent líklegri til þess að eignast barn fyrir tímann.
Í skýrslunni leggur Finnborg til leiðir til úrbóta, til dæmis með því að leggja mat á árangur verkferla og úrræða við móttöku þolenda heimilisofbeldis, skoða hvernig miðlun upplýsinga er háttað milli þjónustukerfa og mismunandi úrræða. Auk þess þurfi að byggja á þekkingu um valdaójafnvægi kynjanna og öðrum þáttum sem hafa áhrif á félagslega stöðu fólks og aðstæður.