Kría tók á móti Víkingum í Hertz-höllinni á Seltjarnarnesi í kvöld og fagnaði þar þriggja marka sigri, 20-17. Heimamenn leiddu með einu marki í hálfleik 7-6.
Þetta var annar leikur liðanna í úrslita einvíginu í umspilinu um laust sæti í Olís deild karla. Kría vann fyrri leikinn með yfirburðum þar sem Víkingar mættu ótilbúnir til leiks á heimavelli. Krían hafði öll tök á vellinum og fagnaði þar 7 marka sigri.
Leikurinn á Seltjarnarnesinu í kvöld spilaðist öðruvísi, það var lítið skorað í fyrri hálfleik. Kría hafði verið í forystu en gestirnir jöfnuðu í stöðunni 6-6, en heimamenn settu lokamark fyrri hálfeiks, 7-6 hálfleikstölur í Flatbökuhreiðrinu, þar sem Kristján Orri Jóhannsson skoraði öll mörk heimamanna að einu undanskildu.
Kríumenn hófu síðari hálfleikinn af miklum krafti og voru búnir að skora fjögur mörk á fyrstu 8 mínútunum svo þjálfara teymi Víkinga tók leikhlé í stöðunni 11-7. Krían lét forystuna aldrei af hendi, var komin 6 mörkum yfir um miðbik síðari hálfleiks 16-10. Víkingarnir reyndu hvað þeir gátu en Krían var númeri of stór í þessu einvígi. Leiknum lauk með þriggja marka sigri Kríunnar 20-17.
Kristján Orri Jóhannsson markahæstur með 9 mörk og Sigurður Ingiberg Ólafsson stórkostlegur í markinu að vanda.





