Vanessa gagnrýndi Nike í færslu á Instagram eftir að hún komst að því að skór, MAMBACITA, sem voru hannaðir í minningu Giönnu, dóttur hennar, væru farnir í dreifingu.
Vanessa segir að ekkert samráð hafi verið haft við sig þegar skórnir voru framleiddir og er afar ósátt við að óprúttnir aðilar ætli sér að reyna að græða á því að selja skóna.
Hún segir þeir hafi ekki átt að fara í almenna sölu og tilgangurinn með því að gera þá hafi verið að safna fé fyrir góðgerðamál. Vanessa segir að Bryant-fjölskyldan hafi ekki enn fengið skóna og skilur ekki hvernig þeir rötuðu í hendur þriðja aðila.
MAMBACITA skórnir eru á litinn eins og körfuboltabúningur Giönnu og með númerinu hennar (2). Inni í skónum eru svo myndir af fiðrildi, vængjum og geislabaug.
Gianna var aðeins þrettán ára þegar hún lést í þyrluslysinu ásamt föður sínum og sjö öðrum 26. janúar 2020.