„Þá fengum við tilkynningu frá stjórnvöldum á Kýpur, að Arna Bryndís Baldvins McClure hafi látið af störfum frá og með þeim degi, sem kjörræðismaður á Íslandi. Og engar frekari skýringar gefnar á því,“ segir Sveinn H. Guðmarsson upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins.
Ráðuneytið hefur í sjálfu sér ekkert með ræðismenn að gera annað en að halda utan um skráningu á þeim og Arna Bryndís er nú ekki lengur skrá sem slík. Arna McClure hefur verið til umfjöllunar að undanförnu í tengslum við hina svokölluðu „Skæruliðadeild Samherja“. Kjarninn og Stundin birtu fréttir þess efnis, eftir að hafa komist yfir gögn úr síma Páls Steingrímssonar skipsstjóra, að þar hafi fámennur hópur, í samráði við yfirstjórn, lagt á ráðin um hvernig best væri að gera meinta andstæðinga fyrirtæksins að ómerkingum.
Í því sambandi var greint frá því að Arna Bryndís væri ræðismaður skattaparadísarinnar Kýpur en í frétt Stundarinnar af því segir að „mútugreiðslur til Dubai-félags Namibíumanna fóru fram í gegnum dótturfélag Samherja, Esja Seafood, sem er til heimilis á Kýpur.“
Sveinn segir að ekki séu lengur neinar tiltækar upplýsingar um kjörræðismenn Kýpur á Íslandi, einfaldlega vegna þess að það er enginn ræðismaður Kýpur skráður eins og sakir standa.