Ástandið á Indlandi vegna veirunnar undanfarna mánuði hefur verið mjög slæmt. Heilbrigðiskerfið bugaðist undan farsóttinni, sjúkrapláss fylltust fljótt og súrefnisskortur hefur valdið alvarlegum afleiðingum í seinni bylgju faraldursins þar í landi. Apríl og maí voru sérstaklega slæmir mánuðir og var ástandið þannig að lík hrönnuðust upp á götum úti.
Margir telja að þeir sem dóu ekki á sjúkrahúsum hafi ekki verið taldir með af yfirvöldum, sem hafi valdið því að opinberar tölur hafi ekki lýst ástandinu eins og það var.
Bara í Bandaríkjunum hafa fleiri greinst smitaðir af veirunni en á Indlandi. Á Indlandi hafa um 29,2 milljónir manna greinst smitaðir af Covid og 359.676 dauðsföll verið skráð.
Nýjustu vendingar virðast þó benda til þess að töluvert fleiri hafi smitast og dáið vegna veirunnar. Yfirvöld í Bihar uppfærðu Covid-tölur sínar í gær. Í því fólst meðal annars að skráðum dauðsföllum fjölgaði úr 5.424 upp í 9.429 samkvæmt frétt Reuters.
Öll nýskráð dauðsföll gerðust í síðasta mánuði og rannsaka heilbrigðisyfirvöld í Bihar þessi mistök og hafa kennt einkareknum sjúkrahúsum um mistökin. Kallað hefur verið eftir því að ráðist verði í viðamikla rannsókn á raunverulegum fjölda smitaðra og dáinna vegna veirunnar.
Talið er að ógreind Covid-tilfelli séu mun algengari en áður var talið, þá sérstaklega í dreifbýli, en tveir þriðjungar Indverja búa utan borga. Þar er lítið um skimunarmiðstöðvar, sjúkrahús eru fá og langt á milli þeirra. Margir hafa veikst á heimilum sínum og dáið þar án þess að hafa nokkurn tíma verið skimaðir fyrir veirunni.
Mörg líkbrennsluhús hafa barist í bökkum við að anna eftirspurn og hafa margar fjölskyldur gripið til þess ráðs að brenna lík dáinna ættingja sinna við bakka Ganges árinnar eða grafa þau í grunnum gröfum á árbökkunum.