Meira en áttatíu ára gamalt hitamet Kanada féll fyrst í Lytton í Bresku Kólumbíu á sunnudag þegar hitinn þar mældist 46,6°C. Það stóð ekki lengi því strax í gær var það bætt um 1,3 gráður, að sögn Veðurstofu Bresku Kólumbíu.
Staðbundin hitamet voru einnig slegin víða annars staðar í Bresku Kólumbíu og oft með miklum mun. Í Abbotsford, rétt austan við Vancouver, sýndi hitamælirinn 42,9°C, meira en tíu gráðum heitara en fyrra hitamet svæðisins frá 2008.
Á norðvesturströnd Bandaríkjanna var hitinn einnig þrúgandi og féllu metin þar í hrönnum. Í Seattle í Washington mældist hitinn 42°C undir kvöld í gær, um tveimur gráðum hærra en metið yfir hæsta hita sem þar hefur mælst sem var sett daginn á undan. Í Portland í Oregon fór hitinn upp í 46,6°C í gær sem var í þriðja skipti á þremur dögum sem nýtt hitamet var sett þar.
Hitabylgjan er sögð sérstaklega óvanalega en íbúar á svæðinu eru vanari mildu veðri. Meðalhiti í Seattle á þessum árstíma er þannig um 21°C. AP-fréttastofan segir að innan við helmingur borgarbúa sé með loftkælingu heima hjá sér.
„Okkur var ekki ætlað þetta. Þetta er upphafið að varanlegu neyðarástandi. Við verðum að takast á við rót þessa vandamáls sem eru loftslagsbreytingar,“ sagði Jay Inslee, ríkisstjóri Washington-ríkis.
Veðurfræðingar segja að orsök hitabylgjunnar nú sé mikið hæðarsvæði yfir norðvestanverðri Norður-Ameríku og að hnattræn hlýnun af völdum manna ágeri hana enn.
„Í heimi án loftslagsbreytinga hefði þetta samt verið gríðarlega öfgafull hitabylgja. Þessi er verri en sams konar atburður hefði verið fyrir fimmtíu árum og vel merkjanlega,“ segir Zeke Hausfather, loftslagsvísindamaður hjá Berkeley Climate-hugveitunni.
Hann bendir á að meðalhiti svæðisins hafi hækkað um 1,7°C síðustu hálfa öldina.