Árás með svokölluðu gagnagíslatökuforriti (e. ransomware) sem var gerð á bandaríska upplýsingatæknifyrirtækið Kaseya á föstudag hefur haft áhrif í á öðrum tug landa. Þrjótarnir komust inn í tölvukerfi Kaseya og þaðan í kerfi viðskiptavina fyrirtækisins. Læstust þá tölvur hundraða fyrirtækja og stofnana, þar á meðal skóla, samvinnubanka og lítilla ríkisstofnana.
Sérfræðingar telja að rússnesku tölvuþrjótasamtökin REvil standi að gíslatökunni. Í yfirlýsingu sem birtist á bloggsíðu sem samtökin nota á svonefndu djúpneti kröfðust þau sjötíu milljóna dollara, jafnvirði um 8,7 milljarða króna.
Talsmaður Kaseya sagði Reuters að fyrirtækið vissi af lausnargjaldskröfunni en gaf ekkert út um hvort að það yrði greitt.