Skoðun

1. júlí reyndist 1. apríl

Guðmundur Andri Thorsson skrifar

Ríkisstjórnin lét þjóðina hlaupa apríl þegar hún hélt hátíð í Hörpu og hrósaði sigri yfir veirunni. Í góðri trú hélt fólk út á göturnar og fagnaði í fölskvalausri og grímulausri gleði. Allt var opnað upp á gátt: hingað á grænu eyjuna var stefnt skemmtanaþyrstu fólki sem langaði að djamma fram á morgun í fullkomnu áhyggjuleysi. Engin próf, engar grímur, engar fjarlægðir, engin gát, engar áhyggjur.

Það tók veiruna undraskamman tíma að ná sér á strik, og tölur yfir smitaða fara hækkandi dag frá degi. Rétt eins og í fyrrasumar var farið of geyst í gleðinni, undir forystu ríkisstjórnarinnar sem gaf tóninn, þá eins og nú.

Í þetta sinn virðist sem of mikil áhersla hafi verið lögð á að bólusetja ungt fólk með Jansen-efninu sem veitir greinilega ekki nógu góða vörn fyrir nýjasta afbrigði veirunnar. Kannski við hefðum átt að gera eins og Danir og sniðganga það efni. Öll áhersla var lögð á að klára bólusetningar á undan öðrum; sigra í einhverri ímyndaðri keppni, sigra sóttvarna-ólympíuleikana með kosningarnar í haust sem lokamarkið: verða græna eyjan á undan öllum öðrum.

Um leið voru barirnir og aðrir samkomustaðir ungs fólks galopnaðir fram á morgun, til að ná inn sem mestu fé á sem skemmstum tíma, án þess að gefa gaum hættunni á því að stefna öllu þessu fólki saman.

Afleiðingarnar af þessu bráðræði blasa við: Græna eyjan varð aftur gul og svo rauð. 1. júlí – opnunardagurinn mikli – reyndist 1. apríl.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×