Fréttablaðið greindi frá því í gær að menn á vegum Top Gear væru á leið til landsins. Mbl.is greindi svo frá því í dag að lögregla hefði verið kölluð til vegna utanvegaksturs við Hjörleifshöfða, þar sem unnið væri að kvikmyndaverkefni á vegum BBC fyrir Top Gear.
Kvartmíluklúbburinn boðaði til svokallaðar Top Gear-sandspyrnukeppni við Hjörleifshöfða í dag en Ingólfur Arnarson, formaður klúbbsins, sagðist ekki hafa neinn tíma til að ræða málið við Vísi í dag. Sigurjón Andersen, varaformaður klúbbsins, sagðist í samtali við Vísi ekki hafa miklar upplýsingar um málið, annað en að klúbburinn væri að aðstoða við kvikmyndaverkefni.
Í samtali við Vísi segir Daníel Freyr Jónsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, að fulltrúi stofnunarinnar hafi verið á vettvangi í dag til að fylgjast með eftir að ábending um málið barst.
„Það hefur ekkert leyfi verið veitt fyrir þessu frá Umhverfisstofnun,“ segir Daníel Freyr en bætir við að Umhverfisstofnun hafi fengið þær upplýsingar að þeir sem stæðu að verkefninu hefðu leyfi landeigenda, en Hjörleifshöfði er í einkaeigu.
„Það er alveg skýrt í lögum að heimild til aksturs utan vegar er háð leyfi Umhverfisstofnunar, segir Daníel Freyr.“ Engin umsókn hafi hins vegar borist.
Með tæki og tól til að laga eftir sig
Aðspurður um hvort Umhverfisstofnun ætli sér að grípa inn í segir Daníel Freyr að stofnunin hafi heimild til þess. Hins vegar hafi þeir sem stóðu að verkefninu fullvissað fulltrúa stofnunarinnar um að hreinsað yrði upp eftir aksturinn, enda hafi þeir verið með tæki og tól til þess.
Fulltrúar stofnunarinnar munu hins vegar taka út svæðið síðar í vikunni til að taka út fráganginn. Staðan verður metin að því loknu.
Top Gear hefur um áraraðir verið gífurlega vinsæll þáttur þar sem fjallað er um bíla. Núverandi þáttastjórnendur Top Gear eru Andrew Flintoff, Paddy McGuinnes og Chris Harris.