McCarrick sem er 91 árs gamall og hafði áður mikil áhrif innan kaþólsku kirkjunnar, var sviptur embætti sínu af páfanum árið 2019. Þá hafði rannsókn Vatíkansins staðfest áratuga gamlan orðróm um að hann væri kynferðisbrotamaður og hefði brotið á börnum og fullorðnu fólki.
AP fréttaveitan segir þetta í fyrsta sinn sem kardináli, starfandi eða ekki, sé ákærður fyrir kynferðisbrot í Bandaríkjunum. Rannsókn hófst eftir að lögmaður mannsins sendi bréf um ásakanirnar til saksóknara.
Maðurinn sem McCarrick er sakaður um að hafa brotið á segir að árið 1974 hafi McCarrick verið prestur og í miklum samskiptum við fjölskyldu hans. Þegar bróðir mannsins var að gifta sig bað faðir hans McCarrick um að ræða við hann, því hann hafi verið að haga sér illa og neitað að mæta í kirkju.
Maðurinn segir McCarrick hafa farið með sig í göngutúr þar sem hann káfaði á honum og seinna í brúðkaupsveislunni hafi hann brotið á honum inn í skáp. Brotin hafi haldið áfram næstu ár.
Áðurnefnd rannsókn Vatíkansins leiddi í ljós að kirkjunni hefði borist ábendingar um möguleg brot McCarrick í það minnst frá árinu 1999. Biskupar, kardinálar og páfar höfðu gert lítið úr eða ýtt til hliðar ásökunum um kynferðisbrot en í skýrslu Vatíkansins sem AP vitnar í, segir að Jóhannes Páll páfi annar hafi borið hvað mesta sök.
Hann gerði McCarrik að erkibiskupi Wasington DC, þrátt fyrir að rannsókn hefði þá staðfest að McCarrick hafði haft mök við prestslærlinga.