„Nei, það eru bara kennarar og skólafólk sem fær að mæta í dag. Sóttvarnalæknir ákvað að byrja á því núna dagana 3. til 13. ágúst og síðan er verið að skipuleggja bólusetningar með örvunarskammti fyrir alla hina sem fengu Janssen 17. til 19. ágúst,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, í samtali við Vísi.
Hún segir eitthvað farið að bera á því að fólk sem hefur fengið Janssen en er ekki skólastarfsfólk sé að reyna að komast að í dag. Heilsugæslan geti þó aðeins sinnt hópi kennara og skólastarfsmanna í dag.

Bólusetningar á þeim sem eru enn óbólusettir hafa farið fram alla virka daga klukkan 14 síðan um miðjan júlí. Þær eru þó aðeins hugsaðar fyrir þá sem geta alls ekki beðið fram í miðjan ágúst og er hámark þeirra sem geta mætt í þær hundrað manns á dag. Skráning í þær fer í gegn um heilsugæslustöðvar fólks.
„Það hefur verið stöðugur straumur hjá okkur í dag og góð mæting,“ segir Ragnheiður. „Við reiknum með að fara upp í um þúsund skammta í dag og vera búin klukkan fjögur.“
Hún segir fáa starfsmenn heilsugæslunnar við störf til að bólusetja enda séu flestir enn í sumarfríi.
Ákveðið var að fara eftir nýju kerfi við bólusetningar skólastarfsfólks, fæðingarmánuði þeirra. Í dag eiga þeir skólastarfsmenn að mæta sem eiga afmæli í janúar og febrúar, á morgun þeir sem eiga afmæli í mars og svo koll af kolli.
Áætlunina má sjá hér að neðan:
- Janúar og febrúar 3. ágúst
- Mars 4. ágúst
- Apríl 5. ágúst
- Maí 6. ágúst
- Júní 9. ágúst
- Júlí 10. ágúst
- Ágúst 11. ágúst
- September og október 12. ágúst
- Nóvember og desember 13. ágúst