Vísbendingar hafa komið fram í rannsóknum um að virkni bóluefna gegn vægari veikindum af völdum kórónuveirunnar dvíni með tímanum. Landlæknir Bandaríkjanna rekur það til þess að ónæmissvar sem bóluefnin valda dvíni en einnig til þess hversu skætt delta-afbrigði veirunnar hefur reynst.
„Við höfum áhyggjur af því að þessi dvínun sem við sjáum haldi áfram næstu mánuði sem gæti leitt til minni verndar gegn alvarlegum veikindum, sjúkrahúsinnlögnum og dauðsföllum,“ sagði Vivek Murthy, landlæknirinn, í gær.
Ekki eru allir vísindamenn sannfærðir um það. Jesse Goodman, sérfræðingur í sóttvörnum við Georgetown-háskóla og fyrrverandi yfirvísindamaður Lyfja- og matvælastofnunar Bandaríkjanna, segir að það eigi eftir að koma í ljós hvort að verndin gegn alvarlegri veikindum minnki með tímanum eða ekki.
Endalaus eltingaleikur við skottið á sér
Þrátt fyrir það hefur nokkur fjöldi ríkja ákveðið að ráðast í endurbólusetningu á eldra fólki, fólki með skerta ónæmiskerfisstarfsemi og fólki sem hefur fengið ákveðin bóluefni, þar á meðal Ísland.
Í Bandaríkjunum stefnir alríkisstjórnin að endurbólusetningarátaki en sérfræðingar hennar eiga enn eftir að leggja formlega blessun sína yfir þau áform. Reuters-fréttastofan segir að sumir sérfræðingar setji spurningamerki við þau áform í ljósi þess að hátt í 30% Bandaríkjamanna sem gætu fengið bóluefni gegn veirunni hafi ekki gert það ennþá á sama tíma og smitum og dauðsföllum fari fjölgandi.
Þá benda sérfræðingar á nauðsyn þess að bólusetja sem flesta jarðarbúa en meirihluti þeirra hefur enn ekki fengið svo mikið sem einn skammt af bóluefni gegn kórónuveirunni. Isaac Weisfuse, faraldsfræðingur við Cornell-háskóla, varar við því að í Bandaríkjunum og Vestur-Evrópu gætu menn endað á sífelldum eltingaleik við skottið á sér með örvunarskömmtum eftir því sem ný og möguleg hættulegri afbrigði veirunnar komi fram annars staðar.
„Í raun og veru ættu menn að bólusetja restina af heiminum til að fyrirbyggja ný afbrigði,“ segir Weisfuse við Reuters.