Stefna kínverskra stjórnvalda er að losun Kína á gróðurhúsalofttegundum verði hlutlaus fyrir árið 2060, að losun kolefnis verði ekki meiri en það magn sem er bundið. Þau hafa lengi reitt sig á skógrækt sem hluta af loftslagsaðgeðrum sínum.
Nú stendur til að hleypa auknum krafti í skógræktina. Landsvæðið sem stendur til að rækta upp á hverju ári er stærra en heildarflatarmál Belgíu, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.
„Fyrir 2035 munu gæði og stöðugleiki þjóðskóga, gresja, votlendis og eyðimerkurvistkerfa vera uppfærð verulega,“ segir Li Chunliang, aðstoðarforstöðumaður Skóga- og graslendisnefndar kínverska ríkisins.
Með aðgerðunum á gróðurþekja Kína að aukast úr 23,04% í 24,1% fyrir lok árs 2025. Li tók ekki fram hvers konar tré yrðu gróðursett. Fimm ára áætlunin kveður á um að treyst verði á náttúrulegan uppvöxt að einhverju leyti sem Reuters segir benda til þess að mismunandi trjátegundir verði notaðar til að rækta upp land.
Áætlunin gerir einnig ráð fyrir að þjóðgarðar landsins verði stækkaðir og að gripið verði til aðgerða til þess að tengja saman búsvæði dýra sem menn hafa skipt upp með umsvifum sínum í gegnum tíðina. Þá stendur til að skera upp herör gegn ólöglegum viðskiptum með villt dýr.
Gróðursetja þarf gríðarlegt magn trjáa til þess að vega upp losun Kínverja á gróðurhúsalofttegundum. Kína losar nú mest allra ríkja í heiminum.
Ný greining markaðsrannsóknafyrirtækisins Comparethemarket.com sem var birt í dag bendir til þess að gróðursetja þyrfti fleiri en fimmtán milljónir trjáa á hverju ári til að núlla út losun frá Peking einni og sér.