Skoðun

Brauðgerðarkenningin

Guðmundur Andri Thorsson skrifar

Við þekkjum brauðmolakenninguna – um að því ríkari sem auðmennirnir verða því betra sé það fyrir samfélagið í heild því að brauðmolar hrjóti af allsnægtarborðum hinna ríku niður til hinna.

Þetta er ljót hugsun.

Þetta er sú pæling að ranglætið borgi sig. Eiginlega var þetta afgreitt fyrir mörgun öldum með vísu sem eignuð hefur verið ýmsum kjaftforum mektarskáldum: „Það er dauði og djöfuls nauð, / er dyggðasnauðir fantar, / safna auð með augun rauð / en aðra brauðið vantar ...“

Brauð rímar við auð: og peningar – eru þeir ekki svolítið eins og hveiti? Sumum finnst skynsamlegt að það sé geymt í risastórum skemmum, og geymt þar bara og geymt. Aðrir telja að réttlætismál sé að gera hveitið upptækt og dreifa því, eða öllu heldur láta Flokkinn taka það; alræmdasta dæmið um slíkt var í Úkraínu á fjórða áratug 20. aldar á valdatíma kommúnista sem ráku bændur af jörðum sínum og þetta kornforðabúr Evrópu var tæmt til ríkisnota svo að úr varð ein hryllilegasta hungursneyð síðustu aldar og milljónir sultu í hel.

Nei. Við þurfum að skapa hvata til þess að fólk sem á öll þessi lifandis býsn af hveiti skapi eitthvað gott og hollt úr því. Til dæmis gott brauð. Þar þarf augljóslega gagnsætt og gott markaðsfyrirkomulag – hæfilega mikið ger, en ekki of mikið því þá hefast það um of. Það þarf að mæla það, líta eftir því, hafa hönd í bagga.

Það þarf með öðrum orðum stjórnvaldsákvarðanir sem ýta undir það að nota hveitið frekar en að geyma það.

Þetta er brauðgerðarkenningin. Það þarf að beinlínis að koma því svo fyrir að það borgi sig frekar að búa til brauð en að geyma hveitið í kornhlöðum. Eða svo að ég hætti nú að bögglast með þessa líkingu: það þarf að skattleggja ofsagróða; ekki eðlilegan sparnað af eðlilegum tekjum heldur ofsagróða. Það þarf að gera það eftirsóknarvert fyrir auðugt fólk að fjárfesta í grænum lausnum, grænni orku – með skattaívilnunum – en tómt tjón og tap af því að fjárfesta í grárri orku og loftslagsógn. Það þarf að virkja það afl sem í auðmagninu býr – ríkisvaldið býr yfir tækjum og tólum til að búa til auðmagnsvirkjanir – en gæta þess að það verði ekki að eyðingarafli – eins og óheftur kapítalisminn verður – eða stíflað með öllu, eins og gerist í ríkisvæðingu kommúnismans.

Jafnaðarmenn aðhyllast nefnilega brauðgerðarkenninguna.

Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×