CNN hefur eftir hershöfðingjanum Frank McKenzie að nú séu engir fulltrúar Bandaríkjahers eða bandarískra stjórnvalda í Afganistan.
„Rýmingin í kvöld markar bæði endalok hernaðarhluta brottflutningsins, en einnig endalok hátt í 20 ára verkefnis sem hófst í Afganistan, skömmu eftir 11. september 2001,“ sagði McKenzie eftir að síðasta flugvél hersins tók á loft, rétt fyrir miðnætti að staðartíma.
Hann bætti því við að vinna við að koma Bandaríkjamönnum, ríkisborgurum annarra ríkja og Afgönum í viðkvæmri stöðu, til að mynda vegna tengsla við Bandaríkin, frá Afganistan myndi halda áfram. Þetta er í fyrsta sinn í tæplega tvo áratugi sem Bandaríkin eru ekki með neina hernaðarviðveru í landinu.