Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur sett drög að breytingu á reglugerð um söfnun, meðferð, varðveislu og dreifingu blóðs og viðauka IV við sömu reglugerð í Samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar.
Ísland er eitt fárra Evrópulanda þar sem samkynhneigðum karlmönnum er alfarið meinað að gefa blóð, en það mun breytast nái breytingin fram að ganga. Stólpagrín var gert að þessu banni í áramótaskaupinu árið 2018, þar sem landsþekktir samkynhneigðir listamenn birtust í skurðstofu þar sem skortur var á blóði í miðri aðgerð .
Gert var grín að því að ekki mætti nota blóð úr samkynhneigðum karlmönnum, jafn vel þótt að líf lægi við.
Breytingin felur jafnframt í sér að kynhegðun veldur ekki lengur varanlegri frávísun blóðgjafar. Í staðinn er kveðið á um að blóðgjafi megi ekki hafa stundað áhættusamt kynlíf í fjóra mánuði fyrir blóðgjöf. Lögð er til skilgreining á því hvað telst vera áhættusamt kynlíf en í því felst að það sé kynlíf sem eykur verulega líkur á að alvarlegir smitsjúkdómar berist með blóði.
Er það skilgreint á eftirfarandi hátt í drögunum:
Áhættusamt kynlíf: Kynlíf sem eykur verulega líkur á að fá alvarlega smitsjúkdóma sem berast með blóði. Hér undir fellur til dæmis kynlíf þar sem verjur eru ekki notaðar og aðilar eru ekki í langtíma stöðugu sambandi eða stunda kynlíf út fyrir sambandið, kynlíf með mörgum einstaklingum með eða án notkunar verja, kynlíf án notkunar verja með einstaklingi sem stundar áhættusamt kynlíf, kynlíf án notkunar verja með einstaklingi sem sprautar fíkniefnum í æð eða hefur gert slíkt og kynlíf með eða án notkunar verja sem stundað er gegn greiðslu.
Verði reglugerðin samþykkt óbreytt mun hún taka gildi frá og með 1. janúar næstkomandi