Skoðun

Hvers vegna Sósíal­ista­flokkinn?

Þór Saari skrifar

Sósíalistaflokkur Íslands er nýr á stjórnmálasviðinu en hefur þó boðskap sem er klassískur, húmanískur og mannvænn. Sósíalistaflokkurinn boðar aukinn jöfnuð og lýðræði, og einnig kærleikshagkerfi, þar sem samvinna, umhyggja og mennska er í fyrirrúmi og þar sem græðgisvæðingu allra hluta hefur verið aflýst.

Hrun nýfrjálshyggjunnar haustið 2008 opinberaði rækilega innbyggða galla þess að braskvæða samfélög og gera alla hluti að markaðsvöru í braski auðmanna, auk þess að draga fram hið gerspillta samband viðskiptalífs og stjórnmála hér á landi.

Framboð Sósíalistaflokks Íslands er í raun beint framhald af þeirri upplausn sem varð hér á landi þegar spillt stjórnmál og bólfélagi þeirra, viðskiptalífið, opinberuðust með þvílíkum hávaða og látum að formaður Sjálfstæðisflokksins sem bar ábyrgðina, bað guð um að blessa Ísland.

Búsáhaldabyltingin í byrjun janúar 2009, þar sem þúsundir manna mótmæltu á Austurvelli í sex daga og sex nætur í köldum íslenskum janúar, var höfnun íslendinga á því kerfi spilltra Fjórflokks stjórnmála fjármögnuðum af viðskiptalífinu sem hafði verið hér við lýði. Það sem fylgdi í kjölfarið var ákveðin uppstokkun í stjórnmálum sem leiddi til nýrrar stjórnarskrár sem var svo samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012. Sú stjórnarskrá inniheldur allt sem til þarf til að koma hér skikki á spillt elítustjórnmál.

Pólitísk yfirstétt í formi íslenskra stjórnmálaflokka hefur hins vegar náð að stöðva það mál með aðferðum sem í öllum nágrannalöndum væru kallaðar réttu nafni, valdarán. Það er nefnilega svo að í lýðræðisríki kemur allt vald frá þjóðinni, nema í íslenska „lýðræðisríkinu“ þar sem skoðun kjósenda eins og hún birtist í þjóðaratkvæðagreiðslu er bara „ráðgefandi.“ Eitthvað sem er algerlega óþekkt meðal allra lýðræðisríkja. Með þeim gjörningi strikaði íslensk valdastétt hugtakið „Lýðveldi“ úr nafni landsins okkar og nú heitir það einungis Ísland og er land hinna fáu.

Pólitísk og efnahagsleg yfirstétt hefur síðan þá sammælst um að halda áfram að braskvæða alla þætti samfélagsins og ekkert á lengur að vera á samfélagslegum forsendum, nema þá að einhverjir bestu vinir „aðal“ geti grætt á því peninga. Þessi siðlausa græðgisvæðing allra hluta er ógeðsleg, hún er ómennsk og hún hefur gert Ísland að einhvers kona þjófræði í anda Rússlands Pútín og annarra verst spilltu ríkja heims. Þetta er það Ísland sem við þurfum að þola í dag og höfum þurft að þola allt of lengi.

En ekki meir.

Sósíalistaflokkurinn er stofnaður til þess að velta þjófræði íslenskrar elítu af stalli sínum og henda alræði spilltra Fjórflokks stjórnmála (sem nú telur að vísu sex) út í hafsauga. Flokkurinn er með breiða skírskotun til allra landsmanna, nema auðmanna og spilltra stjórnmálamanna, og boðar alvöru breytingar á flest öllum sviðum samfélagsins, breytingar sem eru til hins betra fyrir allan almenning.

Í fyrirrúmi er hagur hinna verst settu, sem er hagur allra almennra launþega. Í því þjófræði sem hér ríkir og gengur undir nafninu markaðshagkerfi hefur allur almenningur verið hnepptur í fjötra okurverðs á húsnæði, hvort sem er til leigu eða kaups, okurverðs á matvælum sem eru margfalt dýrari en í öllum nágrannalöndum, okurverðs á tryggingum bíla sem eru allt að því tvöfalt til þrefalt dýrari en annars staðar og okurverðs á flest öllum öðrum þáttum efnahagslífsins, að ekki sé minnst á vaxta- og kostnaðarokur fjármálakerfisins.

Sú fordæmalausa afstaða íslenskra stjórnmála að dæma manneskju sem verður öryrki, til fátæktar það sem eftir er ævinnar er svo forkastanleg að það er bara ógeðslegt. Það sama gildir um eldri borgara sem upplifa sífellt meiri og hærri skerðingar á ellilífeyris sínum af hálfu ríkisvaldsins, sem hefur gert það að verkum að fólk sem hefur lokið ævistarfinu er oft þjakað af áhyggjum af þeirri framtíð sem eftir er. Fólkið sem hefur lokið starfsævinni á einmitt að hafa rífleg eftirlaun og á að fá að lifa áhyggjulausu ævikvöldi, en ekki búa við skerta afkomu og áhyggjur.

Þessu mun Sósíalistaflokkurinn breyta, fái hann umboð til þess frá þér.

Sósíalistaflokkurinn leggur líka mikla áherslu á að allar auðlindir Íslands séu ævarandi sameign þjóðarinnar og að þær megi aldrei gefa eða selja og aðeins leigja tímabundið gegn hæsta fáanlega gjaldi. Nú þegar hefur pólitísk- og efnahagsleg yfirstétt selt umtalsvert stóran hluta landsins til erlendra auðmanna og firðir landsins hafa verið afhentir norskum bröskurum án endurgjalds. Náttúruperlurnar okkar eru fórnalömb græðgisvæðingar undir nafninu „ferðaþjónusta“ sem er iðnaður sem gengur ekki síður hart fram gegn samfélagi og náttúru en annar mengandi iðnaður. Skýjaborgir orkubraskarana, hinna nýju gullgerðarmanna, sem erindast um landið okkar á vegum erlendra auðhringa, munu á endanum gera útaf við óbyggðirnar og hálendið verði ekkert að gert. Fiskveiði auðlindin hefur horfið úr höndum heimamanna um allt land og stórkaðað byggðirnar til þess eins að nokkrir bestu vinir „aðal“ geti auðgast að magni sem er stjarnfræðilegt venjulegu fólki. Slík græðgisvæðing og slíkt hugarfar er svo sjúklegt að það á ekkert, nákvæmlega ekkert, skylt við eðlileg viðskipti eða atvinnurekstur.

En ekki meir. Þessu mun Sósíalistaflokkurinn breyta, fái hann umboð til þess frá þér.

Sósíalistaflokkurinn boðar gott samfélag, samfélag kærleika. Kærleikshagkerfið, þar sem efnahagslífið er gírað inn á það að vera til hagsbóta fyrir alla, eigendur fyritækjanna jafnt sem starfsmenn og viðskiptavini. Þannig og aðeins þannig verður gott að búa á Íslandi fyrir alla, því það er markmiðið.

Sósíalistaflokkurinn er með stefnu í öllum þeim málum er varða samfélagið. Heilbirgðiskerfi af bestu gerð, fyrir alla, þegar þeir þurfa, endurgjaldslaust. Húsnæðisstefnu sem gerir öllum sem vilja kleyft að leigja eða eiga húsnæði án þess að vera bundin á klafa okurs allt sitt líf. Menntastefnu sem gerir fólkið betur undirbúið að lifa í sífellt flóknari heimi. Vinnumarkaðsstefnu þar sem réttur vinnandi fólks og hagsmunasamtaka þeirra er nægilega sterkur til að ráða ferðinni í kjarasamningum og réttindum. Flokkurinn er með stefnu eins og hún gerist best fyrir allan almenning í umhverfis- og loftslagsmálum, jafnréttismálum, samgögnumálum, byggðmálum, málefnum landbúnaðar og matvælaframleiðslu, dómsmálum, utanríkismálum og samgöngumálum. Í fyrirrúmi er hagur allra og þá sérstaklega þeirra sem höllum færi standa, því sé hag okkar minnsta bróður ekki borgið ber okkur öllum, já öllum, skylda til að bæta úr því.

Þessu öllu saman mun Sósíalistaflokkurinn hrinda í framkvæmd, fái hann umboð til þess frá þér.

Kæri kjósandi. Á laugardaginn hefur þú val, raunverulegt val. Það val er á þína ábyrgð. Viljirðu betra samfélag fyrir alla. Fyrir foreldra þína og systkini, fyrir vini og vinnufélaga. Viljirðu betri og öruggari framtíð fyrir börnin þín, og fyrir þig. Þá hefurðu val. Svo sannarlega.

Sósíalistaflokkurinn er valið. Hann er svarið og býr til leiðina til betri framtíðar fyrir þig, og fyrir þína.

Vertu með. Merktu x við J á kjördag.

Höfundur er hagfræðingur og skipar annað sætið á lista Sósíalistaflokksins í Suðvesturkjördæmi.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×