Enn hefur ekkert spurst til mannsins, en sænskir fjölmiðar segja frá því að sjónarvottur, sem stóð á bryggju, hafi séð manninn falla af sæþotunni um tvö hundruð metra frá landi.
Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, staðfestir að um Íslending sé að ræða og að málið hafi komið inn á borð borgaraþjónustu ráðuneytisins. Þá segir hann starfsmenn ráðuneytisins hafa verið í samskiptum við aðstandendur mannsins.
Ekki í björgunarvesti
Ölandsbladet segir frá því að maðurinn, sem sagður er á fimmtugsaldri , hafi fallið af sæþotunni þar sem hann hafi verið á ferð í Köpingsvik um klukkan 15 á laugardaginn. Sagði sjónarvotturinn að maðurinn hafi verið í blautbúningi, en ekki björgunarvesti.
Notast hefur verið við báta, þyrlur og kafara við leitina, en hún hefur enn engan árangur borið.
Málið er nú á borði lögreglunnar í Borgholm. Sjálfboðaliðar á vegum Missing People Kalmar hafa staðið fyrir leit í dag en án árangurs.