Í tilkynningu frá Landssamtökum lífeyrissjóða segir að Ísland sé í fyrsta sinn með í vísitölunni, en hún ber saman lífeyriskerfi í 43 ríkjum.
Í næstu sætum fyrir neðan Ísland koma Holland og Danmörk en ríkin þrjú eru þau einu sem ná efsta flokki vísitölunnar þegar lögð eru saman stig fyrir hvern einstakan þátt.
Í tilkynningunni er bent á að Ísland fái góða útkomu í mörgum þáttum en ekki mjög slaka útkomu í neinum þætti, sem skilar landinu í efsta sætið.
Dr. David Knox, sérfræðingur hjá Mercer, segir ástæður þess að Ísland sé í efsta sæti meðal annars tiltölulega ríflegur lífeyrir frá ríkinu, samtryggingarlífeyrissjóði alls launafólks með hárri iðgjaldaprósentu og góða stjórnarhætti og regluverk lífeyrissjóða í kerfi með góða eiginleika.
Hins vegar mætti gera enn betur með því að minnka skuldir heimilana, hækka lífeyristökualdur og minnka skuldir ríkisins.
Þegar kemur að kynjamun í lífeyriskerfum er Ísland í fjórða sæti en samkvæmt útreikningum OECD er meðallífeyrir kvenna lægri en meðallífeyrir karla í öllum þeim kerfum sem voru til skoðunar.
Munurinn á Íslandi er 13,2 prósent en hæstur í Japan þar sem hann er nærri 50 prósent.
Samanburðurinn byggir annars vegar á talnaefni frá Efnahags- og framfarastofnuninni – OECD og öðrum fjölþjóðastofnunum og gagnabönkum og hins vegar á upplýsingum sem sérfræðingar hjá Mercer og fleiri hafa aflað í viðkomandi ríkjum.