Skoski miðillinn Sunday Mail greindi frá þessu á sunnudag en samkvæmt frétt miðilsins nemur mengunin frá einkaflugvélunum jafn miklu og árleg mengun frá 1.600 Skotum.
Reikningurinn miðar við mengun minni einkaþota, það á til dæmis ekki við um einkaþotur Bandaríkjaforseta, forsætisráðherra Kanada, forseta Þýskalands, forsætisráðherra Japans eða annarra þjóðarleiðtoga. Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hyggst sjálfur fljúga með einkaþotu aftur til Lundúna frá Glasgow að lokinni ráðstefnunni. Ferðalagið milli borganna tveggja tekur um fimm tíma með lest.
Haft er eftir Matt Finch, loftslagsaðgerðasinna, í fréttinni að ein lítil einkaþota blási frá sér um tvö tonn af koltvísýringi á hverjum klukkutíma á flugi. Þá hefðu lang flestir þeirra, sem ferðuðust með einkaflugvél til Skotlands, getað ferðast þangað með áætlunarflugi.
Aðgerðasinnar hafa gagnrýnt einkaþotunotendurna, enda sjá kannski flestir hræsnina sem felst í því að ferðast með einkaþotu á ráðstefnu þar sem fjallað er um loftslagsaðgerðir. Yfirskrift ráðstefnunnar er að hún sé vettvangur til að leiðtogar heimsins geti komið saman og gripið til nauðsynlegra loftslagsaðgerða.
Samkvæmt útreikningum munu einkaþoturnar blása út um 13.000 tonn af gróðurhúsalofttegundunum á ferðalögum til og frá ráðstefnunni. Um 100 flugvélana fljúga til og frá Evrópu, ferðalög sem að meðaltali taka um fjóra klukkutíma í heild. Hinar þrjú hundruð verða á langferð, og fljúga til Ameríku, Afríku eða Asíu.
Að meðaltali mengar ein ferð með einkaþotu tíu sinnum meira á mann en sama ferðalag með áætlunarflugi og 150 sinnum meira en ferðalag með lest.