Í skýrslu IDEA, sænskrar hugveitu um lýðræðismál, er farið yfir þróun í heiminum frá 2020 til 2021. Þar segir að Bandaríkin, sem hafi lengi verið talin höfuðvígi lýðræðis í heiminum, hafi orðið fórnarlamb gerræðishneigðar og hrapað niður listann yfir lýðræðisríki.
Skýrsluhöfundar vísa til atburða sem áttu sér stað í stjórnartíð Donalds Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta. Þeir telja að stoðlausar ásakanir hans um meint svik í forsetakosningunum í fyrra hafi verið sögulegur vendipunktur en hafi grafið undan trausti á kosningum. Þær hafi endað með árás æsts múgs stuðningsmanna Trump á þinghúsið 6. janúar.
Þeir telja jafnframt að aðfarir Trump hafi haft áhrif út fyrir landsteinana í Brasilíu, Mexíkó, Búrma og Perú meðal annars, að því er kemur fram í frétt Washington Post af skýrslunni.
IDEA telur að eitt mesta áhyggjuefnið hnignun lýðræðis í stórum ríkjum eins og Brasilíu og Indlandi en einnig Evrópusambandsríkjum eins og Ungverjalandi, Póllandi og Slóveníu.
„Heimurinn er að verða enn einræðissinnaðri eftir því sem ólýðræðislegar stjórnir verða enn forhertari í kúgun sinni og margar lýðræðislegar ríkisstjórnir verða fyrir hnignun með því að taka upp aðferðir þeirra við að takmarka tjáningarfrelsi og veikja réttarríkið,“ segir í skýrslunni.
Ástandið hafi versnað enn vegna takmarkana í kórónuveirufaraldrinum. Þrefalt fleiri ríki stefni nú í átt að einræði eða valdboði en að lýðræði.