Þetta kemur fram í yfirlýsingu Dýralæknafélags Íslands, þar sem félagið fordæmir þá „ómannúðlegu meðferð“ sem kemur fram í myndbandinu um blóðmerahald sem hefur verið birt í íslenskum fjölmiðlum.
„Harka og ónærgætni sem dýrunum er sýnd er aldrei hægt að réttlæta. Skarkali, ringulreið og sú umgjörð sem sjá má í myndbandinu er einungis til að auka á streitu og hræðslu dýranna og alls ekki til þess fallið að auðvelda rekstur eða frekari meðferð,“ segir í yfirlýsingunni.
Dýralæknafélagið segist vilja hvetja til umræðu um umsvif og stærð búgreinarinnar, kröfur sem gerðar eru til eigenda um þekkingu og reynslu, eftirlit og reglur.
„Mikilvægi þess að hafa góðan ramma og skýr starfsskilyrði ásamt öflugu eftirliti af hálfu hins opinbera er óumdeilt. Hins vegar skal aldrei horft fram hjá ábyrgð eiganda í slíkum málum. Ábyrgðin og sökin er fyrst og fremst hjá þeim sem eru umráðamenn og eigendur viðkomandi dýra,“ segir í yfirlýsingunni.
Þá er vísað til 1. málsgreinar félagsins:
„Dýralæknir skal hafa vakandi auga með því að farið sé vel með öll dýr, þau séu ekki hrekkt, meidd eða kröftum þeirra og þoli ofboðið. Hann skal beita sér fyrir því að í aðbúnaði húsdýra sé tekið tillit tilþekkingar um náttúrulegt atferli dýranna er tryggi þeim góða vist. Dýralæknir skal gæta þess að ekki sé gengið svo nærri getu dýra að heilsa þeirra skerðist. Sjálfur skal dýralæknir vera til fyrirmyndar í umgengni við dýr.