Ísland mætir Japan í vináttulandsleik í Hollandi annað kvöld. Á blaðamannafundi fyrir leikinn var Þorsteinn spurður út í málefni A-landsliðs karla en sem kunnugt er var Eiði Smára Guðjohnsen sagt upp sem aðstoðarþjálfara þess vegna áfengisneyslu eftir síðasta leik Íslands í undankeppni HM 2022.
„Þetta er leiðinlegt mál,“ sagði Þorsteinn. Hann svaraði því neitandi að áfengi hafi verið haft við hönd í landsliðsferðum síðan hann tók við því undir lok síðasta árs.
Þorsteinn var ráðinn þjálfari kvennalandsliðsins eftir að Jón Þór Hauksson hætti vegna áfengisneyslu eftir að Ísland tryggði sér sæti á EM 2022. Hann viðurkenndi að hafa farið yfir strikið í samtölum sínum við leikmenn.
Þorsteinn segir að ekki hafi verið rætt um áfengisneyslu í landsliðsferðum, áfengi sé einfaldlega ekki á boðsstólnum. Ein undantekning gæti þó orðið á því.
„Það hefur ekki verið veitt og verður ekki. Nema við verðum Evrópumeistarar. Þá skálum við í kampavíni og búið,“ sagði Þorsteinn.
„Það er ekkert áfengi í gangi þannig ég hef ekki þurft að bann nokkurn skapaðan hlut. Það hefur aldrei verið rætt en áfengi hefur ekki verið veitt og verður ekki nema vonandi skálað í kampavíni 31. júlí,“ bætti Þorsteinn við en þann dag fer úrslitaleikur EM á Englandi fram.
Eftir leikinn gegn Japan heldur íslenska liðið til Kýpur þar sem það mætir heimakonum í undankeppni HM 2023. Ísland er með sex stig eftir þrjá leiki í undankeppninni.