Skoðun

Nú verða stjórn­völd að bregðast við!

Ragnar Þór Ingólfsson skrifar

Það liggur fyrir að verðlagshækkanir frá heildsölum og framleiðendum hafa verið 3–10% í nóvember og 5–12% í desember. Nú berast tilkynningar um hækkanir í janúar sem nema frá 5 – 25%. Þetta eru svakalegar tölur. En af hverju er þetta ekkert rætt? Hvað er eiginlega í gangi hjá stjórnvöldum og Seðlabankanum?

Þessar miklu hækkanir sem hrúgast yfir samfélagið eru að langmestu leiti vegna erlendra hækkana sem skýrast að mestu á hærri framleiðslukostnaði, vegna hækkun hrávöruverðs, orku og umbúða. Það blasir við að aðgerða er þörf ef ekki á illa að fara. Það blasir við að verð á nauðsynjavörum, sem hefur hækkað mikið, mun hækka enn meira og mun leggjast að fullum þunga á verðlag og vísitölu á næsta ári.

Er það virkilega þannig að stjórnvöld og Seðlabankinn ætli að vera með hausinn í sandinum og kenna kjarasamningum á íslenskum vinnamarkaði um stöðuna? Það blasir við að þær kenningar standast ekki nokkra einustu skoðun.

Það er enn tími til að bregðast við en það er ekki von á góðu ef hið opinbera tekur áróður gegn launahækkunum sem heilagan sannleik og rót verðbólgunnar þegar annað blasir við.

Við þurfum aðgerðir tafarlaust. Það er margt sem bendir til þess að þetta ástand sé tímabundið en mun hinsvegar hafa hrikalegar afleiðingar ef ekkert er gert. Afleiðingar sem munu hækka kostnað við að lifa og á endanum þrýsta enn frekar á hærri húsnæðiskostnað í formi hærri vaxta og verðbólgu á lán og leigusamninga.

Það er einfaldlega ekki í boði að sitja með hendur í skauti þegar hið augljósa blasir við.

Við þurfum að lækka eða afnema virðisaukaskatt á nauðsynjavöru og lækka olíugjald, tímabundið.

Tímabundnar aðgerðir til að bregðast við því fyrirsjáanlega. Að öðrum kosti verður verkalýðshreyfingin nauðbeygð til að sækja hverja einustu krónu sem tapast af ráðstöfunartekjum félagsmanna okkar í næstu kjarasamningum.

Ég er sannfærður um að félagsmenn verkalýðshreyfingarinnar munu standa með okkur sem bendum á leiðir til lausna frekar sem sofandi stjórnvaldi sem virðist falla flatt fyrir áróðri sérhagsmuna. Það er ekki erfitt að skapa stemningu fyrir átökum á vinnumarkaði þegar þrengir að lífskjörum fólks.

Höfundur er formaður VR. 




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×