Skoðun

Við þurfum meira af grænu orkunni okkar

Gunnar Guðni Tómasson skrifar

Eftirspurn eftir raforku hefur aldrei verið meiri hér á landi. Það eru auðvitað góð tíðindi fyrir Landsvirkjun, sem byggir rekstur sinn á sölu rafmagns. Þessi mikla eftirspurn endurspeglar líka jákvæðar aðstæður í rekstri stórra viðskiptavina okkar. Þeir framleiða sem aldrei fyrr inn á markaði, sem greiða hátt verð fyrir. Og eftirspurnin er líka merki um kraft og almenna velgengni í samfélaginu. Nú er hins vegar svo komið að við náum vart að anna eftirspurn eftir raforku, hvað þá að taka nýjum tækifærum fagnandi.

Landsvirkjun rekur stærsta vinnslukerfi raforku á Íslandi og framleiðir yfir 70% af þeirri raforku sem seld er í landinu. Vinnslukerfi okkar samanstendur af 15 vatnsaflsstöðvum, þremur jarðvarmastöðvum og tveimur vindmyllum. Samanlagt uppsett afl í vinnslukerfi Landsvirkjunar er um 2150 MW, þar af um 2000 MW í vatnsafli.

Hluti af þessu afli er bundinn sem svokallað reiðu- og reglunarafl í samningum við Landsnet, en tilgangur þess er að tryggja öruggan rekstur raforkukerfisins. Þar að auki er lítill hluti aflsins almennt frátekinn vegna reglubundins viðhalds í aflstöðvum Landsvirkjunar. Það sem eftir stendur er það afl sem tiltækt er hverju sinni til að framleiða raforku og sinna eftirspurn frá viðskiptavinum okkar.

Aldrei meiri orkuvinnsla

Álag í vinnslukerfi Landsvirkjunar hefur verið mikið undanfarnar vikur. Nú á síðustu vikum hefur heildarvinnsla í kerfinu ítrekað slegið fyrri met. Þann 11. nóvember síðastliðinn fór vinnslan í fyrsta skipti í sögunni í 1869 MW og þann 30. nóvember var metið enn bætt þegar vinnslan var samtals 1890 MW.

Við slíkar aðstæður verður mjög þröngt um tiltækt afl í vinnslukerfi Landsvirkjunar og það jafnvel alveg uppurið. Þetta á sérstaklega við um Suðvesturland þar sem notkunin er mest. Við þetta bætist að staða í miðlunarlónum okkar er frekar þröng um þessar mundir, sérstaklega á Suðurlandi, en flutningstakmarkanir milli landshluta hafa veruleg áhrif á samnýtingu miðlunarlóna Landsvirkjunar og þar með á rekstur vinnslukerfisins í heild. Í þessari þröngu stöðu höfum við leitast við að flytja eins mikla orku suður yfir heiðar og mögulegt er, en þar er flutningskerfið takmarkandi þáttur.

Öfundsverð staða

Við eigum fullt í fangi með að anna eftirspurn eftir grænu, hreinu orkunni okkar og ekkert sem bendir til að draga muni úr þeirri eftirspurn. Þvert á móti, því við vitum að auk þess að anna eftirspurn núverandi viðskiptavina þurfum við jafnframt að huga að orkuskiptum og ýmsum grænum tækifærum framtíðar sem kalla á aukið framboð raforku.

Þetta er öfundsverð staða, í landi endurnýjanlegrar orku. Það blasir hins vegar við að orka og afl inn í raforkukerfið fæst eingöngu með byggingu nýrra virkjana eða stækkun eldri virkjana. Hvort tveggja er langt og flókið ferli sem tekur að lágmarki nokkur ár og í sumum tilfellum jafnvel áratugi í undirbúningi og framkvæmd.

Landsvirkjun stýrir sínu vinnslukerfi með það að markmiði að afhenda orku til viðskiptavina sinna í samræmi við samninga þar um. Við núverandi aðstæður er engin laus orka í vinnslukerfi fyrirtækisins. Rétt er að minna á að það er ekki eingöngu hlutverk Landsvirkjunar að huga að því hvernig aukinni þörf samfélagsins fyrir raforku verður mætt, því samspil heildarframboðs og heildareftirspurnar á raforkumarkaði á hverjum tíma snýr að orkuöryggi í landinu og er á ábyrgð stjórnvalda að tryggja.

Höfundur er framkvæmdastjóri Vatnsafls hjá Landsvirkjun.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×