Verð á matseðli og tilboðum hækkar misjafnlega mikið og standa sumar vörur í stað. Að meðaltali jókst verð um þrjú prósent en minni hækkanir eru á sóttum pizzum. Að sögn Magnúsar Hafliðasonar, forstjóra Domino‘s Pizza á Íslandi, helst verð á fimm tilboðum sem kalla á að pizzur séu sóttar til að mynda óbreytt.
Þá greiði viðskiptavinir sem nýta sér hið klassíska tvennutilboð nú að jafnaði um 50 til 70 krónum meira eftir verðbreytinguna.
Magnús segir að það sé alltaf leiðinlegt að grípa til verðhækkana en hráefnisverð fyrirtækisins hafi hækkað verulega á síðustu misserum. Til að mynda hafi heimsmarkaðsverð á hveiti nýlega náð hæstu hæðum.
Stutt er síðan Domino‘s greip til þess ráðs að hækka verðið á þriðjudagstilboði sínu úr 1.000 krónum í 1.100 krónur. Var það í fyrsta skipti sem tilboðið er hækkað frá því að það var kynnt til leiks fyrir um ellefu árum.