Skoðun

Leg­slímu­flakk: bráð­nauð­syn­legar um­bætur

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Legslímuflakk (endometriosis) er sjúkdómur sem getur valdið sárum verkjum og ófrjósemi, en talið er að sjúkdómurinn hrjái allt að 10% kvenna. Einkenni sjúkdómsins eru mismunandi og geta verið óljós og breytileg milli tímabila hjá sama sjúklingi og því getur reynst erfitt að greina hann. Greiningartími er því oftar en ekki fleiri ár.

Á kvenlækningadeild Landspítalans starfar þverfaglegt legslímuflakks-teymi. Þangað er sjúklingum vísað með tilvísun eða beiðni frá sérfræðilæknum. Meðhöndlun legslímuflakks hefst oft með lyfjameðferð en þörf er á aðgerð í svæfingu til að staðfesta greiningu og til að meðhöndla sjúkdóminn ef lyfjameðferð dugar ekki. Sjúklingunum eru gefin verkjalyf við verkjum sem verulega takmarka lífsgæði. Auk þess felst meðferðin í félagsráðgjöf og sálfræðiþjónustu þar eð sjúkdómurinn getur haft mikil andleg áhrif og leitt til þunglyndis, kvíða og andlegrar vanlíðan.

Að sögn samtaka um endómetríósu getur biðtími eftir viðtali verið langur og mikið er um rangar greiningar áður en sjúkdómurinn er loks greindur. Þá kann skaðinn að vera orðinn mikill, bæði líkamlega og andlega. Biðtími eftir aðgerð er sömuleiðis langur og þar sem hún er síðasta meðferðarúrræðið, er ástand sjúklingsins jafnan orðið mjög slæmt. Verkjaástand er orðið viðvarandi og viðkomandi jafnvel óvinnufær. Fjöldi sjúklinga innan samtakanna skoðar nú leiðir til að fá lausn sinna mála erlendis og þó nokkrir hafa þegar leitað út fyrir landsteinana til frekari meðhöndlunar þar.

Það er mikið réttindamál fyrir svo stóran hóp sjúklinga að fá rétta greiningu og meðhöndlun við sjúkdómnum eins snemma og hægt er. Það er ekki boðlegt að fjöldi sjúklinga bíði árum saman eftir réttri greiningu og þá eftir viðtali og réttri meðhöndlun mánuðum saman. Þeir eru verkjaðir, upplifa sig hjálparlausa og eru jafnvel óvirkir í samfélaginu og á atvinnumarkaði. Upplýsingar og leiðbeiningar um greiningu og meðhöndlun legslímuflakks þurfa að vera útbreiddari. Mjög mikilvægt er að vinna á biðlistum eftir viðtali og meðhöndlun sjúkdómsins.

Ég hef nú lagt fram fyrirspurn á Alþingi til heilbrigðisráðherra varðandi meðhöndlun legslímuflakks. Athygli heilbrigðisyfirvalda hefur skiljanlega beinst í eina átt um nokkurt skeið. Ég hef fulla trú á að ráðherra taki þetta nú til tímabærrar skoðunar og beiti sér fyrir bráðnauðsynlegum umbótum.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×