Þar verður jafnframt framtíðarheimili Hringborðs norðurslóða, Artic Circle og miðstöð um norðurskautsmál í breiðum skilningi. Borgarstjóri segir að þar geti skapast tækifæri til að gera Reykjavík að alþjóðlegri miðstöð loftslagsrannsókna.
Hversu hratt á þetta að rísa?
„ Nú veltur þá svolítið á Stofnun Ólafs Ragnars Grímssonar. Fjármögnunin verður að mörgu leyti á hennar hendi. En ég held að allir aðilar málsins hafi fullan hug á því að þetta gerist hratt og vel,“ segir Dagur.
„ Já ég tek undir það. Þetta er eiginlega fyrsta skrefið. Lóðin er komin. Þá er bara sett upp áætlun um hvernig þetta getur orðið . Þar á meðal að fá fjárfesta að þessu máli. En ég vil endurtaka að þetta er gríðarlega spennandi tækifæri," segir Jón Atli.
„Það er bæði mikilvægt og spennandi fyrir borgina að Hringborð norðurslóða fái heimili í Vatnsmýrinni. Jafnframt skapast tækifæri til að byggja upp klasa rannsókna og nýsköpunar á sviði sjálfbærrar þróunar í nálægð við Vísindagarða, Öskju og nýja stofnun Ólafs Ragnars Grímssonar,“ segir borgarstjóri.
Jón Atli segir mikil tækifæri og samlegð í því að Norðurslóð rísi á svæði Háskóla Íslands í nágrenni við Öskju og Vísindagarða Háskólans.
„ Fyrirhuguð starfsemi fellur einkar vel að starfsemi og stefnu Háskóla Íslands. Um er að ræða vettvang fyrir alþjóðlega og innlenda samræðu og samvinnu um málefni norðurslóða og þýðingu þeirra fyrir framtíð jarðarinnar. Jafnframt verður þetta öflugur vettvangur fyrir alþjóðlegt og innlent vísinda- og nýsköpunarsamstarf í þágu norðurslóða, loftslagsmála og sjálfbærrar þróunar. Þetta er því í senn bæði áhugavert og spennandi," segir Jón Atli Benediktsson.