Skjálftarnir tengjast kvikuhreyfingum á svæðinu en ekki eru merki um gosóróa.
„Það er kvikusöfnun í gangi í jarðskorpunni við Fagradalsfjall og þetta er kannski ekkert ósvipað þeirri smáskjálftavirkni sem sást þremur vikum fyrir gosið.
Það er ómögulegt að segja hvort eitthvað sé á leiðinni upp en við teljum allavega litlar líkur á því að það verði næstu klukkutímana. En maður veit samt aldrei nákvæmlega með þessa jörð,“ segir Böðvar Sveinsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.
Fram kemur í Facebook-færslu Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands að nokkuð lífleg jarðskjálftahrina hafi byrjað í Fagradalsfjalli um kvöldmatarleytið. Eitthvað virðist hafa dregið úr virkninni á níunda tímanum.
Um er að ræða nær samfellda smáskjálftavirkni þar sem engin skjálfti hefur mælst yfir 2 að stærð. Að sögn hópsins virðist eiga sér stað á svipuðum slóðum og innskotið sem olli gosinu í Geldingadölum.
Fréttin hefur verið uppfærð.