„Það var auðvitað óþægilegt að vera að fá svona jarðskjálftahrinu aftur núna eftir að þetta hafði legið niðri legni vel. Þannig að menn vöknuðu margir upp við vondan draum í nótt þar sem var farið að skjálfa og fannst greinilega fyrir þessum skjálftum,“ segir Fannar Jónasson bæjarstjóri.
Og skjálftarnir halda áfram og hafa farið stækkandi með deginum. Sá stærsti í hrinunni mældist 4,9 nú rétt fyrir klukkan hálf tíu í morgun. Rétt fyrir hann varð annar stór skjálfti sem mældist 4,1.
Óvissustig á svæðinu
Þessir skjálftar finnast mjög vel í Grindavík sem er sá bær sem liggur næst upptökum skjálftanna. Þeir eru á svipuðu svæði og skjálftahrinurnar sem urður í byrjun árs fyrir gos. Almannavarnir hafa nú lýst yfir óvissustigi á svæðinu.
Skjálftarnir hafa þó ekki verið af þeirri stærð að hlutir fari að falla úr hillum í Grindavík.
„Nei, ekki höfum við orðið vör við það hérna. Ég er hérna á bæjarskrifstofunni og það er ekkert sem að hreyfist úr stað hérna hjá okkur og ég hef ekki heyrt að það hafi gerst í bænum. Þetta var náttúrulega áberandi skjálfti þannig við finnum fyrir honum en það hafa ekki hreyfst til munir eða fallið úr hillum svo ég viti til,“ segir Fannar.
Halda sinni rútínu
Bæjarbúar reyna að láta þetta ekki hafa áhrif á sig rétt fyrir jól en Fannar neitar því ekki að það sé auðvitað leiðinlegt að fá þessa hrinu núna, rétt eftir að fréttir af goslokum fóru að berast.
„Jú, jú það er ekki því að neita, þetta er óþægilegt. Og vekur upp minningar um skjálftahrinuna sem var í janúar og febrúar og aðdraganda gossins þá. En við kunnum ekkert að lesa í þetta og reynum bara að fylgjast með því sem vísindamenn eru að greina í þessari stöðu,“ segir hann.
„Við höldum bara okkar rútínu held ég. Og fólk reynir að taka þessu bara með ró. En svona, þetta hefði mátt missa sín.“
Nú bíði allir rólegir og taki því sem koma skal. Viðbragðsaðilar eru þá tilbúnir á svæðinu ef gos hefst eða stærri skjálftar verða.
Er þetta að verða nýja normið hjá ykkur í Grindavík?
„Vonandi ekki. En við vitum svo sem ekkert um þetta og tökum því sem höndum ber. En þetta er óneitanlega óþægilegt að þetta skuli vera að vakna aftur upp frá værum svefni en svo vitum við ekkert nema þetta sé bara að fjara út núna og sé bara tímabundið. Það verður bara að koma í ljós.“