Fastlega er búist við því að Viðar myndi þá snúa aftur með Sólveigu, annað hvort á lista sem stjórnarmaður eða að hún réði hann inn í sína fyrri stöðu sem framkvæmdastjóri ef hún bæri sigur úr bítum í kosningunum. Sjálfur vill hann ekkert gefa upp um hvort hann og Sólveig undirbúi nú endurkomu en útilokar það ekki:
„Ég tjái mig ekkert um það,“ sagði Viðar einfaldlega þegar fréttastofa bar það upp á hann í dag.

Þá hefur verið afar erfitt að ná í Sólveigu síðustu vikuna en þegar fréttastofa náði loks í gegn til hennar sagðist hún einfaldlega ekkert vilja tala við okkur áður en hún skellti á. Það var áður en hægt var að bera mögulegt framboð undir hana.
Íhuga uppsögn ef Sólveig kemur aftur
Stór hluti starfsliðs skrifstofunnar talar þá á þá leið að hann myndi segja upp ef Sólveigu og Viðari tækist að komast aftur til stjórnar í stéttarfélaginu.
Viðar og Sólveig sögðu af sér í byrjun vetrar eftir að ályktun trúnaðarmanna starfsmanna komst í opinbera umræðu. Það var stjórnarmaðurinn Guðmundur Jónatan Baldursson sem falaðist fyrst eftir því að stjórnin fengi að sjá ályktunina en í henni lýsti starfslið skrifstofunnar mikilli óánægju sinni með stjórnarhætti Sólveigar og Viðars.
Forysta Eflingar lagðist þó gegn því að stjórnarmenn fengju að sjá ályktunina og komst málið í kjölfarið í fjölmiðla.
Þá tóku bæði Sólveig og Viðar að gagnrýna trúnaðarmenn skrifstofunnar og starfsliðið harðlega í fjölmiðlum. Eftir það eru margir enn mjög sárir og herma heimildir Vísis að stór hluti skrifstofuliðsins geti alls ekki hugsað sér að starfa aftur með þeim tveimur.
Stefnir í spennandi kosningabaráttu
Það er Ólöf Helga Adolfsdóttir, starfandi varaformaður Eflingar og fyrrverandi hlaðmaður hjá Icelandair, sem mun leiða svokallaðan A-lista Eflingar í kosningunum. Það er listi sem uppstillinganefnd félagsins hefur stillt upp og bæði stjórn og trúnaðarráð samþykkt.
Hann var samþykktur síðasta fimmtudag en nú geta félagsmenn Eflingar boðið fram eigin lista gegn A-listanum fyrir kosningar. Framboðsfrestur rennur út 2. febrúar, eftir rúmar tvær vikur.
Sólveig hefur þann tíma til að safna fólki á lista og bjóða fram ef hún hyggst snúa aftur sem leiðtogi stéttarfélagsins. Hún bauð sig fram gegn A-listanum árið 2018 þegar hún sigraði kosningar stéttarfélagsins með miklum yfirburðum og var kjörinn formaður.
Guðmundur Jónatan Baldvinsson, stjórnarmaður Eflingar, hefur þá tilkynnt að hann sækist sjálfur eftir formannssæti og mun því sjálfur bjóða fram eigin lista gegn A-listanum.
Bæði framboð Ólafar Helgu og Guðmundar Jónatans búast fastlega við því að Sólveig bjóði sig fram á næstu dögum og félagsmenn muni velja úr þremur valkostum þegar kosningarnar fara fram í febrúar.