Kómoreyjar komust áfram á mótinu með því að vinna óvænt Gana 3-2, og mæta Kamerún í 16-liða úrslitum í kvöld, í sennilega stærsta leik sínum frá upphafi.
Aðalmarkvörður Kómoreyja, Salim Ben Boina, meiddist hins vegar í sigrinum gegn Gana og varamarkverðirnir Moyadh Ousseini og Ali Ahamada smituðust báðir af kórónuveirunni.
Í morgun greindist Ahamada hins vegar með neikvætt sýni en nú er komið í ljós að engu að síður má hann ekki spila leikinn í kvöld.
Kómoreyjamenn munu því tefla fram útileikmanni í markinu og sá hefur verið valinn, eins og aðstoðarþjálfarinn Jean-Daniel Padovani sagði í gær:
„Við höfum þegar valið útileikmann sem verður í markinu. Hann hefur sýnt okkur á æfingum að hann getur spilað sem markvörður,“ sagði Padovani en gaf ekki upp hver útileikmaðurinn væri.